„Ég er jákvæð og spennt fyrir að takast á við verkefnið. Einhverjar áherslubreytingar verða með nýju fólki eins og gjarnan er og verða þær mjög líklega í samræmi við áherslur okkar á Suðurnesjum,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, nýskipaður lögreglustjóri í Reykjavík.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði í dag Sigríði Björk Guðjónsdóttur í embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem þýðir að hún flyst frá embættinu á Suðurnesjum þar sem hún hefur verið frá árinu 2009. Hún var aðstoðarríkislögreglustjóri á árunum 2007–2008, sýslumaður á Ísafirði 2002–2006 og þar áður skattstjóri Vestfjarðaumdæmis.
„Ég er búin að vera í löggæslu í langan tíma, tólf ár sem lögreglustjóri og stjórnandi frá árinu 1996. Það verður gaman að koma á nýjan stað og vonandi innleiða þau gildi sem við höfum verið með á Suðurnesjum,“ segir hún.
Sigríður segir ekki tímabært að fjalla ýtarlega um komandi áherslubreytingar, enda eigi hún eftir að fara á staðinn og ná tengingu við starfsmenn og heyra þeirra sjónarmið ásamt sjónarmiðum íbúa. „En á Suðurnesjum hefur áhersla verið lögð á baráttuna gegn heimilisofbeldi ásamt eflingu rannsókna í kynferðisbrotamálum og búast má við svipuðum áherslum.“
Sigríður Björk er fyrsta konan sem gegnir embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. „Ég sit í jafnréttisnefnd lögreglunnar og hef áður lýst því yfir að það þurfi að jafna betur hlutföll karla og kvenna í lögreglu. Ég er því mjög ánægð með þetta,“ segir hún.
Fréttir mbl.is: