Funda vegna ástandsins á Gaza

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkisnefndar Alþingis.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkisnefndar Alþingis. mbl.is/Rósa Braga

Umræða um hvort slíta ætti stjórnmálasambandi við Ísraels var eitt af þeim efnum sem rædd voru á fundi utanríkisnefndar Alþingis fyrr í dag.

„Þetta var meðal annars rætt. Sjónarmið manna um það eru mismunandi og mismunandi sjónarmið um hvaða árangri slík aðgerð myndi skila. Undirskriftalisti með nöfnum 6.600 kjósenda er eitt af þeim atriðum sem komu upp á fundinum,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkisnefndarinnar.

Hann segir að engin niðurstaða hafa orðið á fundinum en nefndin muni funda aftur eftir helgi þegar Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er kominn til landsins. 

„Persónulega er ég þeirrar skoðunar að slit á stjórnmálasambandinu væru rangt skref í þessum efnum. Betra er að halda þeim boðleiðum opnum sem diplómatísk samskipti fela í sér. Nefndin sem slík tók ekki afstöðu til slíkrar spurningar eða annarra á þessum fundi,“ segir Birgir.

Meginefni fundarins var staðan á Gaza-svæðinu en einnig var rætt um ástandið í Úkraínu. „Það var helst framhald þvingunaraðgerða sem við höfum átt aðild að ásamt öðrum ríkjum Evrópu,“ segir Birgir.

Hann segir að stuðningur hafi verið meðal nefndarmanna um þá afstöðu sem íslensk stjórnvöld hafa látið í ljós á alþjóðavettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert