„Pínulítill þjófur“ í Hönnubúð

Eins og sjá má hefur þjófurinn verið heldur smávaxinn enda …
Eins og sjá má hefur þjófurinn verið heldur smávaxinn enda komst hann inn um þetta litla gat. Ljósmynd/Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir

Brotist var inn í Hönnubúð í Reykholti í Borgarfirði í nótt. Að sögn Jóhönnu Sjafnar Guðmundsdóttur, eiganda verslunarinnar, var nokkrum sígarettupökkum og N1-eldsneytiskortum stolið. Kortin eru hins vegar gagnslaus þar til greitt hefur verið inn á þau.

Litlar skemmdir urðu á húsnæði verslunarinnar en talið er að þjófurinn hafi verið smávaxinn þar sem hann hefur laumað sér inn í verslunina með því að brjóta rúðu í minnsta glugga hennar. 

„Þetta hefur verið pínulítill þjófur sem kemst í gegnum sirka 20 sentímetra stórt gat að þvermáli. Það er komin hingað í búðina ein ellefu ára stelpa sem passar fínt hérna inn um gatið,“ segir Jóhanna.

Innbrotið átti sér stað rétt fyrir klukkan fjögur í nótt og vinnur nú lögreglan að rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert