Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun á fundi í dag þar sem þeir telja að einn borgarfulltrúi hafi notið bílafríðinda hjá borginni umfram aðra borgarfulltrúa í verulegum mæli án þess að formleg ákvörðun hafi verið tekin sem heimili slíkt.
Á fundi borgarráðs 22. maí sl. lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn um notkun Dags B. Eggertssonar á bifreiðum í eigu Reykjavíkurborgar. Telja þeir svarið sem barst frá staðgengli borgarstjóra í dag vera óljóst. Af svarinu telja þeir að megi ráða að hann hafi notið bílafríðinda umfram aðra í verulegum mæli.
Í svarinu kemur fram að annars vegar hafi borgarfulltrúinn haft afnot af bíl borgarstjóra þegar hann gegndi starfsskyldum staðgengils hans og stöku sinnum í opinberum erindagjörðum á vegum Reykjavíkurborgar. Hins vegar hafi borgarfulltrúanum staðið til boða afnot af tveimur öðrum bifreiðum til slíkum í opinberum erindagjörðum.
„Margir aðrir borgarfulltrúar eru mikið á ferðinni í opinberum erindagjörðum án þess að þeim standi til boða afnot af bifreiðum borgarinnar eins og gerst hefur í þessu tilviki. Brýnt er að skýrar reglur gildi um bílafríðindi kjörinna fulltrúa og að komið verði í veg fyrir notkun þeirra á bifreiðum Reykjavíkurborgar án þess að skýr heimild liggi fyrir um slíkt,“ segir í bókuninni.