Óvenjumikið vatn rennur yfir veginn í Múlagöngum sem liggja á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.
Göngin eru einbreið og hefur vatnsaginn, sem rekja má til sprungna í veggjunum, vakið vangaveltur um það hvort öryggi vegfarenda sé stefnt í hættu.
Gísli Eiríksson, yfirmaður jarðgangadeildar hjá Vegagerðinni, telur svo ekki vera. „Það er ekkert nýtt undir sólinni. Þetta hefur alltaf verið svona. Klæðningin í göngunum er eitthvað skemmd. Svo á vatnið það til að flytja sig til og koma þar sem ekki er klæðning. Það er vissulega óvenjumikið vatn núna. Alla jafna er meira vatn á sumrin en á veturna sem helgast af snjóbráðnun,“ segir Gísli í Morgunblaðinu í dag.