Greiða mun hærri skatta en í fyrra

30 hæstu gjaldendur á lista Ríkisskattstjóra greiða mun hærri skatta í ár en í fyrra.

Í ár greiða þeir samtals rúma 3,8 milljarða króna, en í fyrra greiddu þeir tæpa 2,3 milljarða. Sá sem hæsta skatta greiðir í ár greiðir ríflega tvöfalt hærri skatta en skattakóngur ársins áður.

Þannig greiðir Jón A. Ágútsson, skattakóngur, 411.842.058 krónur, en Magnús Kristinsson, skattakóngur ársins áður, greiddi 189.606.555 krónur. 

Þeir 10 gjaldhæstu í ár greiddu rúma 2,3 milljarða króna í ár, í fyrra greiddu þeir aðeins um 1,1 milljarð. 10 hæstu gjaldendur ársins í ár greiða því nærri því jafnháa skatta og efstu 30 gjaldendur ársins áður.

Gísli Másson, sem er neðstur á 30 manna listanum í ár, greiðir 69.527.677 krónur til hins opinbera. Sá sem vermdi „botnsætið“ í fyrra greiddi hins vegar „aðeins“ 54.931.501 krónu. Hefði Gísli greitt sömu fjárhæð í skatt í fyrra hefði hann verið í 12. sæti.

Kristján V. Vilhelmsson, sem vermir 6. sætið á lista Ríkisskattstjóra í ár, greiðir hærri skatta en skattakóngur síðasta árs, Magnús Kristjánsson, greiddi í fyrra, eða 189.902.544.

Að skapi greiða þeir einstaklingar sem eru í 21. til 30 sæti í ár samtals hærri skatta en þeir sem voru í sætum 11 til 20 í fyrra. Fyrrnefndi hópurinn greiðir um 720 milljónir króna í ár, en sá síðarnefndi greiddi 655 milljónir árið áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert