Sjúkdómur eins, en hrjáir alla

Natan ásamt móður sinni - Natan hleypur til styrktar Rótarinnar, …
Natan ásamt móður sinni - Natan hleypur til styrktar Rótarinnar, en móðir hans þjáðist af áfengissýki. Úr einkasafni

Móðir Natans Kolbeinssonar lést úr heilablóðfalli fyrir bráðum tveimur árum. Hún hafði lengi átt við alkóhólisma að stríða og hleypur Natan því til styrktar Rótinni -  félagi um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst.

„Þetta er málefni sem tengist mér mjög náið. Alkóhólismi er sjúkdómur sem hrjáir alla í fjölskyldunni þótt þetta sé sjúkdómur eins einstaklings,“ segir Natan við mbl.is í dag. Hann sér hlaupið sem leið til að skora á sjálfan sig og láta jafnframt gott af sér leiða, en þetta er fyrsta skiptið sem hann hleypur 10 kílómetra.  

Sjúkdómurinn leggst nær fjölskyldunni

Af samfélagslegum ástæðum telur Natan að sjúkdómurinn leggist ekki eins á konur og karla.

„Fjölskyldumeðlimir upplifa það ekki eins ef móðir þjáist af alkóhólisma. Það er erfiðara fyrir unga krakka að missa tengslin við móður sína vegna alkóhólisma en föður. Það er auðvitað bara vegna þess að konur eru mikið meira með börnunum. Sjúkdómurinn leggst nær ef manneskja sem hefur verið með manni svona mikið í æsku hverfur frá.

Hann hefur þá sterkari tengingu við börnin.“

Hafði prufað mörg úrræði

Aðspurður hvað styrkir til Rótarinnar leiði af sér svarar Natan:

„Ég held að umræðan um áfengissýki - hjá konum sérstaklega - gæti orðið meira áberandi. Umræðan um alkóhólisma innan fjölskyldu mun eflast og farið verður í meðferðarúrræði sem henta betur konum og þetta verður sérhæfðara.“

Móðir Natans hafði prufað mörg meðferðarúrræði sem ekki virkuðu.

„Von mín er að það verði hægt að bjóða upp á meðferðarúrræði sem gagnast öllum.“

Liðkar sig og þjálfar eftir bestu getu

Natan hleypur þrjá til sex kílómetra nokkrum sinnum í viku til að þjálfa fyrir hlaupið. Þá teygir hann mikið og liðkar sig því hann kveðst vera stirður að eðlisfari.

„Ég reyni eins og ég get með vinnu og öðru.“ Natan starfar sem vaktstjóri hjá Hamborgarafabrikkunni og er auk þess virkur í starfi ungra jafnaðarmanna, þar sem hann er formaður.

Vilji menn styrkja framtak Natans er hægt að nálgast styrktarsíðu hans á hlaupastyrkur.is ásamt síðum þeirra fjölmörgu hlaupara sem hlaupa fyrir gott málefni.

Natan Kolbeinsson - Natan segir að alkóhólismi sé sjúkdómur sem …
Natan Kolbeinsson - Natan segir að alkóhólismi sé sjúkdómur sem hrjáir alla fjölskylduna Sent af natani
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert