Byrjaði barn í eldhúsinu

Hinrik Örn Lárusson - 18 ára yfirkokkur á Hótel Varmahlíð …
Hinrik Örn Lárusson - 18 ára yfirkokkur á Hótel Varmahlíð í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hinrik Örn Lárusson er 18 ára síðan í mars en ræður þó ríkjum í sumar í eldhúsinu á Hótel Varmahlíð í Skagafirði. Geri aðrir betur! Ekki nóg með það; Hinrik hefur þegar vakið athygli og var ausinn lofi á matarbloggi á vefnum nýlega.

„Mamma átti Hótel Heklu á Skeiðum og ég byrjaði þar níu ára gamall í uppvaskinu. Hún ýtti mér út í þetta!“ segir Hinrik Örn þegar forvitnast er um hvers vegna hann, svo ungur, sé orðinn yfirkokkur á veitingastað. Útskýrði málið svo nánar: „Þegar ég átti að vinna á herbergjunum nennti ég því ekki heldur vildi fá að vera í eldhúsinu til að fylgjast með.“

Í fyrstu fékk Hinrik að fara út með ruslið en þegar hann var 12 ára leyfði móðirin, Sigrún Lára Hauksdóttir, drengnum að halda á hníf í fyrsta skipti og skera grænmeti. „Ég var í eldhúsinu á sumrin og flest kvöld eftir skóla á veturna og 14 ára byrjaði ég að standa 13 tíma vaktir á hótelinu með yfirkokknum. Ég fór ekki í menntaskóla strax eftir 10. bekk heldur fór að vinna á Hótel Selfossi. Var kokkur þar í tvö sumur, vann svo á stað í Reykjavík sem nú heitir Mar og var smátíma á Hótel Holti.“

Eftir það eldaði Hinrik ofan í kvikmyndagerðarfólk og tók að sér að sjá um veislur. „Það er mjög lærdómsríkt að fara sem víðast. Ég hef farið á milli veitingastaða, stundum verið bara 2-3 daga á hverjum, til að sjá hvernig menn vinna og spyrja kokkana. Maður lærir helling af því.“

Hinrik hóf nám í eldhúsinu á Hótel Sögu í fyrra en eftir sex mánuði fór hann til Frakklands ásamt franskri stúlku sem hann kynntist á vinnustaðnum. „Ég vann á tveggja stjörnu Michelin-stað í tvo og hálfan mánuð en eftir það ákváðum við að koma aftur heim og leituðum okkar að sumarvinnu.“

Svanhildur Pálsdóttir, eigandi hótelsins í Varmahlíð, vann á sínum tíma með móður Hinriks; kokk vantaði á hótelið og hann var réttur maður á réttum tíma.

Matseðillinn á hótelinu í sumar er smíð Hinriks og Svanhildar hótelstjóra. „Ég var í mikilli hugmyndavinnu úti í Frakklandi og sendi Svönu uppástungur sem hún valdi úr. Við viljum frekar vera með lítinn matseðil og gera allt frá grunni en bjóða upp á mjög marga rétti. Við leggjum áherslu á mat úr héraði og erum til dæmis með lamb af bæ hótelstjórans. Bjóðum líka upp á hrossalund, fáum bleikju frá Hólableikju, allan annan fisk og mjólkurvörur frá Sauðárkróki og salat, grænmeti og kryddjurtir sæki ég í garðyrkjustöðina á Laugamýri. Það er því varla hægt að gera betur í því að bjóða upp á mat af svæðinu.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert