Druslugangan var farin í fjórða sinn frá Hallgrímskirkju í dag. Mikill fjöldi fólks tók þátt í göngunni að þessu sinni, veðrið var ljúft og stemningin afar góð.
Gangan hófst við Hallgrímskirkju klukkan tvö og var gengið niður Skólavörðustíg, Bankastræti og endað á Austurvelli. Þar tóku við fundarhald og tónleikar.
Þetta er fjórða árið í röð sem gangan er farin hér á landi en víða erlendis er hefð fyrir göngunni undir heitinu Slut Walk. Tilurð göngunnar má rekja til ummæla sem lögreglustjórinn í Toronto lét eitt sinn falla um að nauðganir væru á vissan hátt á ábyrgð kvennanna sjálfra sem fyrir þeim yrðu. Frjálslegur klæðaburður og stutt pils ýttu undir nauðganir.
Ummæli lögreglustjórans voru kveikjan að göngunni þar sem megináherslan er lögð á að ábyrgð kynferðisglæpa færist frá þolendum til gerenda. Ekki sé hægt að afsaka gjörðir þeirra sem fremja kynferðisglæpi með klæðaburði fórnarlamba, ástandi þeirra eða hegðun.
Að þessu sinni er athyglinni beint að dómskerfinu og því að mörg tilkynnt kynferðisbrot enda ekki með ákæru heldur falla niður.