Frægt málverk af Bjarna heitnum Benediktssyni, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóra í Reykjavík á árunum 1940 til 1947, gæti verið enn eina ferðina á leið upp á vegg í fundarherberginu í Höfða.
Málverkið, eftir Svölu Þórisdóttur Salman, var í bakgrunni myndar af þeim Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov, á mynd ljósmyndara Hvíta hússins, sem birtist í helstu fjölmiðlum heims, hinn 13. október 1986, morguninn eftir að 48 stunda leiðtogafundi stórveldanna lauk í Reykjavík.
Síðan það var virðist myndin hafa orðið að bitbeini mismunandi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. R-listinn, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, lét taka málverkið niður; Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri lét setja verkið upp aftur, í sinni skömmu borgarstjóratíð og meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar lét taka það niður á nýjan leik 2011. Verði kvikmynd um leiðtogafundinn tekin í Höfða, er málverkið að líkindum á leið upp á vegg í Höfða á nýjan leik.