Vilji stendur til þess að auka tengsl á milli Íslands og Írans á sviði efnahagsmála. Gunnar Pálsson sendiherra fundaði með Valiollah Afkhami-Rad, sem fer fyrir stofnun um utanríkisviðskipti Írans, í vikunni.
Afkhami-Rad segir að ríkisstjórn Írans, undir forsæti Hassans Rouhanis, vilji efla tengsl landsins við lönd víða um heiminn, þar á meðal Ísland, og draga jafnframt úr viðskiptahindrunum á milli landa, að því er segir í frétt á vefnum PressTV.
Afkhami-Rad bætir ennfremur við að löndin tvö, Ísland og Íran, geti unnið saman á fjölmörgum sviðum, svo sem við vísindastarf í fiskveiðum, grænni orku, jarðvísindum og einnig á sviði ferðaþjónustunnar.
Þá bauð Gunnar íranskri viðskiptasendinefnd að koma til Íslands og taka þátt í sjávarútvegssýninu í Reykjavík hinn 25. september næstkomandi.