„Samkvæmt félagatali okkar þá mega 900 hjúkrunarfræðingar hefja töku lífeyris á næstu þremur árum af þeim u.þ.b. 2.800 sem eru í starfi. Á þeim tíma munum við einungis mennta í kringum 400 hjúkrunarfræðinga.“
Þetta segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í Morgunblaðinu í dag, en hann segir skort á hjúkrunarfræðingum blasa við á næstu árum verði ekkert að gert.
Ólafur segir vandann ekki séríslenskan en íslenskir hjúkrunarfræðingar séu eftirsóttir erlendis og þá freisti það margra að leggja annað fyrir sig með betri launum og minna álagi. „Þetta er eitthvað sem við verðum að reyna að draga úr. Við erum að missa marga mjög hæfa hjúkrunarfræðinga í önnur störf en við höfum full not fyrir þá innan heilbrigðiskerfisins,“ segir hann.