„Við erum vægast sagt orðin langþreytt á þessu ástandi. Ofaníburður í veginum er mjög lélegur og verður ein steypudrulla ef hann er heflaður í bleytu eins og gert var. Í þessu ástandi er vegurinn beinlínis hættulegur og ógnar öryggi íbúanna.“
Þetta segir Margrét Jónsdóttir á Syðra-Velli í Flóahreppi um ástand malarvega í sveitinni. Nefnir hún þar helst Hamarsveg og Vorsabæjarveg en hún segist hafa verið búin að fá nóg og vakið athygli á þessu á Facebook-síðu sinni, þar sem meðfylgjandi myndir voru birtar.
„Hamarsvegurinn var heflaður í þarsíðustu viku og var aðeins skárri á eftir. Síðan var hann aftur heflaður fyrir helgina og þá í rigningu. Eftir það varð hann nánast óökufær. Hann hefur aðeins þornað núna en er ennþá mjög holóttur. Holurnar eru það þéttar að það er ekki smuga að sneiða framhjá þeim,“ segir Margrét meðal annars í viðtali í Morgunblaðinu í dag.