Lögreglan á von á fjölmenni við bandaríska sendiráðið klukkan 17 í dag þegar mótmælin vegna ástandsins á Gaza fara þar fram og hafa varnargirðingar verið settar upp við sendiráðið. Samtökin Amnesty International munu einnig mótmæla fyrir utan sendiráðið.
Samhliða fundinum í Reykjavík verða haldin mótmæli á Ráðhústorginu á Akureyri.
Félagið Ísland-Palestína efndi til mótmælanna og hafa um 1.700 manns boðað komu sína á Facebook síðu viðburðarins. Í fréttatilkynningu félagsins segir að kröfur fundarins séu að blóðbaðið verði stöðvað tafarlaust, umsátrinu um Gaza aflétt strax, að Palestínumenn hljóti alþjóðlega vernd og að hætt verði að vopna Ísraelsher til voðaverka á Gaza. Þá er Obama beðinn um að stöðva fjöldamorðin.
„Blóðbaðið á Gaza heldur áfram. Ísraelsstjórn fer sínu fram og beitir hernaðarmætti sínum án tillits til mótmæla umheimsins með skelfilegum afleiðingum. Öllum er ljóst að Ísraelsríki getur ekki haldið uppi hernaði sínum gegn Gaza eða hernámi sínu í Palestínu nema með Bandaríkin sem fjárhagslegan og hernaðarlegan bakhjarl,“ segir í tilkynningu félagsins.