Steinunn Þóra Árnadóttir mun taka sæti Árna Þórs Sigurðssonar á þingi þegar hann lætur af þingstörfum. Utanríkisráðherra skipaði í gær þá Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra, og Árna Þór Sigurðsson, alþingismann Vinstri grænna og fyrrverandi formann utanríkismálanefndar, sendiherra í utanríkisþjónustunni frá og með 1. janúar 2015.
Steinunn segir það leggjast vel í sig að taka sæti á Alþingi. „Enda gefur maður ekki kost á sér ofarlega á lista nema vera reiðubúinn til þess.“
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið í gær ekki hægt að greina frá því að svo stöddu hvert nýskipaðir sendiherrar verða sendir.
„Það er ekki hægt að greina frá því hvert þeir fara því áður en það er gert þurfa þeir að hljóta samþykki frá því ríki sem þeir fara til,“ segir Gunnar Bragi. Spurður hvenær niðurstaðan liggur fyrir svarar hann: „Það getur tekið bæði langan tíma og stuttan. Þeir eru skipaðir frá og með áramótum og er það sá tími sem við gefum okkur í þetta.“
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun Geir að líkindum taka við starfi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.