„Okkur finnst þetta fara mjög vel af stað, það skín sólin og allt er í blóma. Ég er einmitt stödd niðri í bæ núna, það eru komnir margir á tjaldstæðin og það iðar allur bærinn af lífi,“ segir Aníta Erlendsdóttir, einn skipuleggjenda Síldarævintýrisins á Siglufirði.
Hátíðin stendur yfir um verslunarmannahelgina og er dagskráin fjölbreytt. „Klukkan fjögur hefst skemmtidagskráin á útisviðinu og svo á morgun og á sunnudaginn er dagskrá frá klukkan 14 til miðnættis. Það er allt ókeypis fyrir gesti. Ef fólk kýs svo að fara á tónleika eða böll þá er einhver aðgangseyrir þar,“ segir Aníta.
Tjaldstæði bæjarins eru í óða önn að fyllast en heimamenn deyja ekki ráðalausir. „Oft er það þannig að tjaldstæðin sem eru auglýst eru full, en þá eru bara allar stórar graslóðir í miðbænum líka notaðar svo hægt sé að koma öllum fyrir í bænum.“
Að sögn Anítu eru gestir hátíðarinnar heimafólk og brottfluttir Siglfirðingar í bland við forvitna gesti. Fyrst og fremst er það fjölskyldufólk sem sækir hátíðina.
Annað kvöld mun svo hljómsveitin Kaleo halda tónleika á stóra sviðinu sem búist er við að verði vinsælt. „Svo hefur undanfarin ár verið mjög skemmtilegt á sunnudagskvöldunum. Þá hefur verið bryggjusöngur við síldarminjasafnið og stór flugeldasýning. Þá er rosa gaman, þar hópast allir á sama stað og þá sér maður fjöldann svo vel. Það er svolítill hápunktur og á sama tíma lokapunktur.“
Ekki er vitað hversu margir munu leggja leið sína á Siglufjörð um helgina en Aníta býst við því að það verði fleiri en í fyrra. „Ég er nokkuð viss um að við sláum fjöldametið frá því í fyrra því það var svo lélegt veður þá. Við verðum voðalega glöð ef við fáum um 5–6000 gesti. Það er mjög passlegt fyrir okkur,“ segir Aníta.