„Þátttakendum sem ganga í gleðigöngu með mannréttindum, gegn fordómum, er alls ekki bjóðandi að lenda við hlið einhvers sem sýnir göngunni þá lítilsvirðingu sem fylgir steggjum og gæsum í brúðkaupshugleiðingum á þessum vettvangi.“ Þetta segir í pistil sem Birna Hrönn Björnsdóttir og Þorvaldur Kristinsson rituðu í tímarit Hinsegin daga árið 2012 en vert er að huga að í tilefni gleðigöngunnar sem fram fer laugardaginn 9. ágúst.
Í pistlinum segir að með gleðigöngunni sé fagnað þeim sigrum sem unnist hafa í mannréttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og um leið látið í ljós þakkæti til ættingja og vina. „Það hefur gerst hvað eftir annað hin síðustu ár að gagnkynhneigt fólk, sem verið er að steggja og gæsa fyrir væntanlegt brúðkaup reyni að troðast óboðið inn í gleðigönguna, ekki til að lýsa samtöðu, heldur er tilgangurinn sá að lýsa niðurlægingu viðkomandi steggs eða gæsar. „Ha, ha, auminginn villtist inn í Gay Pride gönguna! Er hann kannski hommi?!“ Myndbandsupptökur af „ævintýrinu eru síðan sýndar í brúðkaupsveislunni og hlegið dátt af óförum brúðarinnar eða brúðgumans.“
Birna starfar sem plötusnúður og segist hún sjálf hafa lent í því að vera að spila í brúðkaupi þar sem slík upptaka var sýnd við mikla kátínu gesta. Aðspurð um tilfinninguna sem því fylgdi segist hún fyrst og fremst hafa áhyggjur af þeim sem eru hikandi við að koma út úr skápnum og sjá síðan samkynhneigða vera hafða að háði og spotti. „Ég hugsaði helst að þarna inni voru um 120 manns. Óstálpaðir unglingar og alls konar fólk. Ef allir frændur þínir sitja þarna og hlæja af einhverjum homma þegar þú ert það kannski sjálfur getur það leitt til þess að þú hugsir þig tvisvar um áður þú stígur út úr skápnum.“
Hún segir það algengt að fólk mæti í gleðigönguna í þessum tilgangi og reyna gæsa- eða steggjahópar stundum að taka frá vagn fyrir gleðskapinn.
„Í fyrra tókum við greinina með okkur útprentaða og gengum með hana á fólk. Við sögðum að svona liði okkur, þó svo að þeir meintu kannski vel.“ Birna segir fólk þá gjarnan fara í vörn og viðbrögðin á þessa leið: „Við fílum alveg homma, við erum bara að grínast.“ Þá segir hún viðkomandi oftast vera beðinn um að færa skemmtunina eitthvert annað. „Við nennum heldur ekkert að eyða deginum okkar í þetta. Við vonum bara að fólk taki ábyrgar og sjálfstæðar ákvarðanir.“