Fimmtán minniháttar fíkniefnamál komu upp í Vestmannaeyjum í nótt þar sem þjóðhátíð fer nú fram. Þá var tilkynnt um þrjár minniháttar líkamsárásir. Fimm gistu fangageymslur vegna ölvunar og leiðinda að sögn lögreglu.
Að öðru leyti gekk nóttin þokkalega vel fyrir sig að sögn lögreglu. Um tólf til þrettán þúsund manns eru á þjóðhátíð að sögn lögreglu og voru í gær mun fleiri komnir á svæðið en á sama tíma í fyrra. „Það stefnir í mjög fjölmenna hátíð,“ sagði Hörður Grettisson í þjóðhátíðarnefnd í samtali við mbl í gær.
Lögreglan í Vestmannaeyjum nýtur aukins liðstyrks vegna verslunarmannahelgarinnar og voru tólf lögreglumenn við störf í nótt í stað tveggja, eins og væri vanalega tilfellið, auk sex til viðbótar frá fíkniefnalögreglunni.