„Það þorði enginn að koma með mér, því allir voru hræddir um að verða reknir,“ segir 22 ára gömul kona sem var sagt upp starfi eftir að hún krafðist kjarasamningsbundinna launa. Hún vann aðeins um kvöld og helgar en fékk jafnaðarkaup á of lágum taxta. Stéttarfélagið Efling segir þetta viðvarandi vanda í veitingageiranum.
„Það er örugglega í meirihluta tilfella þar sem menn eru á einhverjum jafnaðarlaunum sem eru langt undir lágmarkslaunum miðað við þá vinnu sem þeir vinna,“ segir Tryggvi Marteinsson, starfsmaður Eflingar.
„Það er engin tilviljun að alltaf þegar við reiknum málið út reynast launin vera of lág. Þau eru aldrei of há. Þannig að ég vil nú meina að þetta sé markviss gert. Að menn treysti sér ekki til, eða vilji ekki, greiða lágmarkslaun og finna þá út einhver „jafnaðarlaun“ sem eru rétt yfir dagvinnunni, en svo vinnur fólk bara á kvöldin og um helgar.“
Tryggvi segir Eflingu fá mörg dæmi um þetta en lítið sé hægt að gera. „Við vitum um mörg hundruð manna vinnustaði sem greiða of lág laun. Svo koma kannski 5-10 starfsmenn um hver mánaðamót til okkar, við sendum endalaust út launakröfur, og þeir fá leiðréttingu, en allir hinir eru á of lágum launum.“
Gréta Sóley Sigurðardóttir er ein þeirra sem ekki sætti sig við að vangreidd laun. Hún hóf störf á Lebowski Bar í miðborg Reykjavíkur í lok maí og segist hafa verið afar ánægð með vinnuna, þangað til hún fékk launaseðilinn 1. júlí. Þá kom í ljós að hún fékk greiddar 1.550 kr á tímann í jafnaðarkaup. Samkvæmt kjarasamningi ber þó að greiða minnst 1.700 kr í kvöldvinnu og enn meira um helgar og stórhátíðir. Gréta Sóley vann nánast bara um kvöld og helgar, en hafði tekið eina dagvakt.
„Ég gerði athugasemd við launaseðilinn, hringdi í yfirmann minn og sagðist ósátt því ég hefði ekki vitað að það væri jafnaðarkaup. Þá var sagt á móti: „Spurðirðu um það?“ Ég sagði nei, því ég reiknaði náttúrulega bara með því að allt yrði borgað rétt.“
Gréta Sóley skrifaði ekki undir neinn ráðningarsamning en hafði kynnt sér hver kjarasamningsbundin laun væru og sá því að ekki var allt með felldu. Henni var hinsvegar sagt að á Lebowski Bar væru greidd jafnaðarlaun, og því yrði ekki breytt fyrir hana. Hún sagðist þá ætla að hafa samband við stéttarfélagið. „Fimm mínútum síðar fæ ég símtal frá yfirmanni mínum sem segir að þau ætli að setja vaktirnar mínar á „hold“ þar til væri leyst úr þessu,“ segir Gréta Sóley.
Hjá Eflingu var hún hvött til að fá það fyrirkomulag skriflegt, því vinnuveitanda ber að greiða fyrir skipulagðar vaktir þótt starfsmaður sé beðinn að mæta ekki á þær. „Ég sendi þá sms og sagðist vilja fá þetta skriflegt fyrir kvöldið, því þá átti ég að mæta á kvöldvakt. Þá fékk ég svarið að það væri verið að senda mér uppsagnarbréf og þeim þætti leiðinlegt að þetta hefði ekki gengið upp,“ segir Gréta Sóley.
„Mér fannst frábært að vinna þarna, og sagðist vera tilbúin að vinna áfram, fyrir rétt laun. Þá svarar hann mér að þeir séu ekki tilbúnir að borga það sem ég væri að biðja um, þannig að það gengi ekki upp. Það sem ég var að biðja um voru grunnlaun samkvæmt kjarasamningi. Hann segir mér hreint út að þeir ætli ekki að borga mér rétt laun, og þess vegna sé ég rekin.“
Samkvæmt kjarasamningum er skylt að sundurgreina launaseðil í dag-, yfir-, og eftirvinnu en að sögn Tryggva hjá Eflingu er það mjög oft ekki gert í veitingabransanum. Starfsfólk fái bara tímafjölda og eina summu án þess að þekkja sitt tímakaup almennilega. Þess vegna geti verið erfitt fyrir fólk að átta sig á því þegar verið er að fara illa með það, ekki síst ungt fólk sem þekki illa rétt sinn.
„Ég held að það sé eðli mannsins, sérstaklega þegar hann er að byrja á vinnumarkaði, að treysta sínum yfirmanni. Eðlilegast væri líka auðvitað að það væri hægt, og það er hægt í eiginlega öllum atvinnugreinum nema þessari, hún sker sig alveg úr,“ segir Tryggvi hjá Eflingu.
Móðir Grétu Sóleyjar, Helga Dögg Sverrisdóttir, ritaði grein í Morgunblaðið í vikunni þar sem hún vakti athygli á þessu og sagði vitundarvakningu þurfa til að koma í veg fyrir jafnaðarlaun. „Ég hvet ungt fólk sem þiggur jafnaðarlaun, sem eru lægri en í kjarasamningi, að leggjast á sveif með stéttarfélögunum og hafna jafnaðarkaupi. Ég kalla foreldra til samræðu um laun unga fólksins, ræðið við börn ykkar um kjarasamningsbundin réttindi, hvetjið þau til að leita réttar síns hjá stéttarfélögunum,“ skrifaði Helga Dögg.
Tryggvi tekur í sama streng. Hann segir Eflingu sjá mál sem þessi koma ítrekað upp hjá sömu fyrirtækjunum árum saman. Viðurlögin eru engin, og erfitt er að ná til starfsfólksins vegna þess hve starfsmannavelta er hröð.
„Auðvitað þyrfti fólk að þekkja rétt sinn, og svo þyrftu að vera viðurlög við síbrotum, að mínu mati. Það er engin ástæða til þess að menn hagnist á því að vera óheiðarlegir. Það er ekkert eðlilegt við það.“