„Allt gekk mjög vel í dalnum í gær, veðrið var frábært og flestir til mikillar fyrirmyndar,“ segir Hörður Orri Grettisson í Þjóðhátíðarnefnd. Hann segir einhverja pústra og fíkniefnamál hafa komið upp í nótt, en gæslan sé góð og mikið og öflugt eftirlit skýri þann fjölda mála sem upp kom.
„Þetta er bara til marks um hve góð gæslan er og við sendum skýr skilaboð um að svona hegðun er ekki liðin í Herjólfsdal,“ segir Hörður.
Á vef Eyjafrétta er því slegið föstu að aldrei hafi fleiri verið í dalnum á föstudagskvöldi Þjóðhátíðar og talað um tíu til tólf þúsund manns. Hörður telur þetta ekki ólíklegt.
„Það er allavega langt síðan svona margir hafa verið hérna á föstudegi. Skipið hefur verið þéttsetið og það eru 520 manns að koma í land hérna rétt bráðum.“
Hörður segir örlitla vætu hafa gert vart við sig í morgun, en nú sé stillt og gott veður. Hann ítrekar að spáin sé góð og Eyjamenn og gestir því bjartsýnir á framhaldið. Hann segir að þrátt fyrir að erfiðlega geti gengið að komast yfir til Vestmannaeyja sé ekki uppselt í dalinn og því enn möguleiki að láta sjá sig.
„Ég held að eitthvað sé eftir í Herjólf í laugardagspassann. Það er auðvitað frábær dagskrá í kvöld, bæði John Grant og endurkoma Quarashi. Nú er fólk að týnast niður í bæ, fá sér að borða og gera sig klárt fyrir kvöldið. Þetta lofar virkilega góðu,“ segir Hörður.