Fyrirtækið Stykki ehf. í Stykkishólmi hefur á undanförnum árum smíðað plastbáta og annast viðgerðir á bátum. Nú eru þeir félagar að kynna nýja framleiðslu.
Um er að ræða að smíða brýr, útsýnispalla og fleiri mannvirki úr plasti sem hefur ekki verið gert áður hér á landi. Plastefnið er framleitt í Danmörku og hefur verið notað víða í Evrópu í brýr og önnur mannvirki.
Stykki mun smíða útsýnispalla og brýr í hvaða styrkleika sem er. Þegar hefur verið smíðuð sex metra löng plastbrú sem er til sýnis og kynningar. Brúin er 600 kg að þyngd, en sambærileg brú úr stáli og timbri vegur yfir 2.000 kg.