Laufey Ýr Sigurðardóttir, yfirlæknir á nýjum barnaspítala í Orlando, og teymi hennar hefur fengið veglegan styrk til þess að aðstoða börn með raskanir á einhverfurófi. En aðstoð við börn með sérþarfir hefur verið á undanhaldi á svæðinu. Ýr segist vona að með tímanum hætti fólk að lækka róminn þegar talað er um einhverfu.
Laufey er sérfræðingur í taugalækningum barna og flutti til Orlando í Flórída í Bandaríkjunum fyrir rúmum tveimur árum síðan. Henni var þar boðið að starfa sem yfirlæknir á sviði flogaveiki barna á glænýjum barnaspítala þar, Nemours Children's Hospital. Nú hefur spítalanum verið úthlutað um 75 milljónum í styrk til þess að byggja upp starfsemi og þjónustu við börn á einhverfurófi.
„Þegar ég kom út áttaði ég mig fljótlega á því að þjónusta við börn á einhverfurófi með raskanir á Orlando-svæðinu var töluvert styttra á veg komin en ég hafði búist við,“ segir Ýr en hún starfaði lengi á einhverfusviði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. „Ég sá að Íslendingar voru nokkrum skrefum á undan Flórídabúum í þjónustu við ung börn með hugsanlega einhverfu.“
Ekki leið á löngu þar til Ýr fór að starfa með yfirsálfræðingi spítalans við það að reyna að finna leiðir til þess að auka þjónustu við þennan hóp barna.
„Við ákváðum að einbeita okkur að þeim. Möguleikar þessara barna hámarkast þegar borið er kennsl á þau snemma, greining framkvæmd án tafar og þjálfun hafin á unga aldri.“ Ýr og samstarfsfélagi hennar sóttu um styrki sem fengust fyrst úr einkageiranum en nú hefur Flórída-ríki einnig ákveðið að færa verkefninu styrk. Um er að ræða árlegan 670 þúsund dollara styrk. „Styrkurinn er okkar áfram ef við stöndum okkur.“
Ýr á sjálf átta börn og svo vill til að einn af sonum hennar er með háttstandandi einhverfu og gengur í grunnskóla ytra. „Markmiðið með greiningu og meðferð er ekki að lækna einhverfu sem slíka, einhverfa er ótrúlega falleg á margan hátt. Hér er frekar verið að hjálpa þeim að aðlagast sem best og ná sem mestri færni,“ segir Ýr.
Í fjórða lagi verður farið um fátæku hverfin á sendiferðabíl og börn heimsótt í hverfum sínum. „Við sjáum það í Ameríku að það eru margir sem hafa ekki burði eða peninga til þess eins að koma og hitta okkur á spítalann og því munum við sækja börnin heim. Við munum reyna að fá mæður til okkar í bílinn með börnin sín án nokkurra skuldbindinga. Farið verður í sex skipti á næstu mánuðum og við erum að vinna í að koma á samstarfi við stórverslanir á borð við Walmart að leyfa okkur að sinna þessu starfi fyrir utan verslanir þeirra.“
Ýr hefur því í nógu að snúast og segist ekki á heimleið á næstunni. Hins vegar muni hún flytja heim en fyrst bíður hennar þetta veigamikla verkefni.