Jólasveinar kepptu í mýrarbolta

Jólasveinarnir glöddu viðstadda með jólatré og jólanammi
Jólasveinarnir glöddu viðstadda með jólatré og jólanammi Ljósmynd/Sigurjón J Sigurðsson

„Það var gríðarlega góð stemning í dag, æðislegar aðstæður og drullugott mót að baki,“ segir Jóhann Bæring Gunnarsson drullusokkur um keppni dagsins í mýrarbolta á Ísafirði.

Úrslit í mótinu liggja nú fyrir, en hinar ísfirsku Ofurkonur sigruðu í kvennaflokki, en Ísak City bar sigur úr býtum meðal karlanna. Ekki var þó um auðvelda sigra að ræða að sögn Jóhanns, en vítaspyrnukeppnir þurfti til að knýja fram úrslit.

Um 50 lið voru skráð til leiks í ár, en fjöldi þátttakenda og gesta svipaður og undanfarin ár.

Hljóta einn stærsta bikar landsins

Aðeins eitt lið hlýtur Evrópumeistaratitilinn, en enn á eftir að reikna út hvort það verða Ofurkonur eða Ísak City sem hreppa titilinn. Verðlaunin eru ekki ónýt, en Evrópumeistararnir hljóta gríðarlega stóran farandbikar að launum.

„Þetta er einn stærsti bikar landsins, hann er mannhæðarhár og mjög erfitt að halda á honum. Fyrst eftir að hann var smíðaður tók sig eitt lið til og rændi honum og dröslaði honum út um allan bæ. Ég held það sé bara það erfiðasta sem hefur verið gert í keppninni,“ segir Jóhann.

Gáfu gestum jólanammi

Furðuleg sjón mætti gestum á Ísafirði í gær þegar hópur jólasveina vappaði út úr skóginum og heilsaði viðstöddum. Þar var um keppendur í mýrarboltanum að ræða, en að sögn Jóhanns leggja þeir ávallt mikið upp úr búningum og góðri innkomu.

„Jólasveinarnir komu röltandi inn á svæðið með jólatré á bakinu. Þeir gáfu gestum og gangandi jólanammi og hafa verið að skemmta sér og dansa í kringum jólatréð yfir helgina.“

Jólasveinar eru hins vegar ekki einu gervin sem liðið hefur brugðið sér í.

„Þeir komu einu sinni inn á svæðið sem skoskar „Braveheart“ frelsishetjur með blys og læti. Þeir hafa líka verið Suðurríkjamenn í einhvers konar kúrekabúningum, en í fyrra komu þeir sem pönkarar,“ segir Jóhann.

mbl.is náði ekki í jólasveinana í síma, en ekki er vitað hvort þeir notist almennt við slíka tækni.

Snýst mest um stemninguna

Að sögn Jóhanns snýst keppnin að miklu leyti um skemmtun og gleði, frekar en eiginlegan sigur í mýrarboltanum.

„Stærsti hlutinn af þessu er auðvitað stemningin og það er búið að vera ótrúlega gaman hjá okkur um helgina. Það eru allir glaðir og stemningin frábær. Í kvöld verður verðlaunaafhending og brenna, og Evrópumeistarar krýndir samhliða því. Síðan verða bara stórtónleikar,“ segir Jóhann.

Vefsíða mýrarboltans

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert