Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is flugu yfir Landeyjahöfn í gær til að ná myndum af bílaröðinni við höfnina. Myndirnar virðast frekar vera eins og af maurum í halarófu eða gámum við stóra flutningahöfn frekar en bílum.
Þess má geta að ljósmyndarinn, Þórður Arnar Þórðarson, hélt um stýrið á vélinni og blaðamaðurinn, Sigurður Bogi Sævarsson, tók myndirnar.
Bílaröðin var tveggja til þriggja kílómetra löng í gær og mun sennilega lengjast eftir því sem Þjóðhátíðargestum fjölgar. Erfitt er að nefna eitthvað sambærilegt þessari röð, en upp í huga einhverra kemur sjálfsagt umferðateppan mikla á þjóðhátíð á Þingvöllum árið 1994.
Fyrsta ferð úr Eyjum á þessum sólarhring var klukkan fjögur í nótt. Alls fer skipið fimm ferðir yfir sundið í dag, það er úr Landeyjahöfn klukkan 13, 16 og 18 og má því gera ráð fyrir að einhverjir bílar bætist við fram eftir degi í dag.
Strax upp úr miðnætti í kvöld, þegar dagskrá Þjóðhátíðar fer að þynnast, liggur straumurinn svo upp á fastalandið. Fyrsta ferð Herjólfs frá Eyjum er kl. tvö í nótt og á einum sólarhring verða alls tíu ferðir upp á land með fólk; eigendur ökutækjanna í röðinni miklu sem verður væntanlega fljót að brotna upp.
Lögreglan á Hvolsvelli segir að röðin hafi vissulega verið löng áður, en ekki eins löng og í ár. Núna nær röðin upp að afleggjara, eins og sést á myndinni, og myndar hálfgert „L“, en slíkt hafi ekki gerst áður. Röðin upp að afleggjaranum er 2,1 kílómeter, en frá afleggjara og að enda raðarinnar eru að minnsta kosti 200 til 300 metrar.
Nú hefur hefur öðru bílastæði verið komið upp við þjóðveginn, og fólk er ferjað á milli með rútum. Eitthvað hefur þó tínst úr röðinni þegar fólk kom frá Eyjum í morgun. Lögreglan segir þó því miður nokkuð hafa borið á því að fólk hafi keyrt af stað undir áhrifum áfengis, og hafi tveir verið stöðvaðir í morgun.
Lögrglumenn bjóði fólki að blása þegar það kemur úr Herjólfi, en þrátt fyrir það sest fólk undir stýri undir áhrifum áfengis. Þessi hegðun er alls ekki til eftirbreytni og hvetur lögreglan fólk frekar til að bíða heldur en að keyra undir áhrifum.