Almenningi á Íslandi líkt og víðar hefur blöskrað framferði Ísraels á Gaza undanfarnar vikur. Tæplega 7000 hafa skrifað undir áskorun á stjórnvöld að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna blóðbaðsins. En í hverju fælust slík slit? Íslendingar hafa einu sinni tekið það skref áður, gegn Bretum í þorskastríðunum.
Í kröfunni sem safnað er undirskriftum við segir að Íslendingar verði að sýna að þeir verði ekki framar „þátttakendur í því hálfkáki sem mótmæli gegn hernaðarásásum Ísraels á saklaust fólk eru venjulega. Hið eina sem hugsanlega gæti sent Ísraelsmönnum nógu sterk skilaboð væri að slíka stjórnmálasambandi við þá.“
Utanríkismálanefnd Alþingis hefur tvisvar fundað um ástandið á Gaza síðustu daga þar sem þetta skref hefur m.a. komið til umræðu, án þess að taka afstöðu.
Almennt er ekki litið svo á að stjórnmálasamband milli ríkja feli í sér samþykki eða viðurkenningu á stjórnarháttum. Þvert á móti er það hinn formlegi farvegur fyrir lausn deilumála án beitingar hervalds. Fullvalda ríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau taki upp eða slíti stjórnmálasambandi, en fátítt er að til slita komi og þá oftast í tengslum við hernaðarátök.
Sem dæmi má nefna að stjórnvöld í Úkraínu sögðust um miðjan júlí íhuga að slíta stjórnmálasambandi við Rússland. Rússar innlimuðu Krímskaga í sambandsríkið í vor, gegn vilja Úkraínu, og eru grunaðir um að útvega uppreisnarmönnum í Donetsk þungavopn til að berjast gegn úkraínska stjórnarhernum. Þrátt fyrir harðvítug átök hefur þó enn ekki orðið af því að Úkraínumenn slíti stjórnmálasambandi við Rússa.
Stjórnmálasamband er í raun forsenda pólitískra samskipta. Slit þess fela fyrst og fremst í sér skilaboð um að viðkomandi ríki hafi gefist upp á því að hafa áhrif á ríkið sem snúið er baki við. Þannig mætti færa rök fyri því að slit á stjórnmálasambandi væru til marks um að menn hafi gefist upp á að tala fyrir breytingum. Á hinn bóginn mætti segja að þar sem diplómatísk samskipti virðist engin áhrif hafa sé slit á stjórnmálasambandi skýrustu skilaboðin um andúð á framferði annars ríkis.
Ögmundur Jónasson benti á það í vikunni að með fullum stjórnmálaslitum yrði öllum Íslendingum sem vildu fara til Palestínu snúið við. Hann sagðist þess vegna hallast að því að rangt væri að skera á tengslin, en að Íslendingar gætu sýnt andúð sína á enn markvissari hátt með því að slíta stjórnmálasambandi við Bandaríkin, sem skapi Ísrael alþjóðlegt skjól. Mótmælendur hér hafa ekki þrýst á íslensk stjórnvöld að gera það, en fjölmenni lét þó í sér heyra við bandaríska sendiráðið í gær og krafðist þess að blóðbaðið yrði stöðvað.
Íslendingar hafa einu sinni áður tekið þetta skref og það er jafnframt í eina skiptið fyrr og síðar sem eitt Nató-ríki slítur stjórnmálasambandi við annað innan bandalagsins. Það var 19. febrúar 1976 þegar Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta vegna síðasta þorskastríðsins. Í því fólst að sendiherra Íslands var samstundis kallaður heim frá Bretlandi og sendiherra Breta sömuleiðis gert að hverfa af landi brott.
„Þetta er mjög sjaldgæft og ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi,“ segir Guðni Th. Jóhannessonar sagnfræðingur um slitin. Raunar var það svo fátítt að Íslendingar virðast ekki alveg hafa vitað hvernig þeir ættu að fóta sig á þessum vígvelli formlegheitanna.
Sagan segir að Pétur J. Thorsteinsson ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu hafi hringt í sendiherra Breta, Kenneth East, til að ráðfæra sig við hann um hvernig þeir ættu að bera sig að. Úr varð að sendiherrann færi úr landi, en þá fór ekki betur en svo að flugfreyjur lögðu niður störf svo East varð strandaglópur. „Kenneth East átti að fara einn, tveir og þrír en vegna verkfallsins gat hann ekki flogið burt þannig að hann var svona hálfpartinn í felum í sumarbústað í grenndinni, þar til verkfallið leystist,“ segir Guðni.
Á síðari tímum eru algjör slit á stjórnmálasambandi tveggja ríkja sjaldan raunveruleg, nema að takmörkuðu leyti því samskiptin halda oft áfram, svo lítið beri á, gegnum þriðja aðila. Sú var einmitt raunin í þorskastríðinu. „Samskipti halda áfram, en eftir öðrum og flóknari leiðum. Það þarf þá vera einhver milligöngumaður,“ segir Guðni.
„Starfsfólk breska sendiráðsins, annað en sendiherrann, var um kyrrt á Íslandi og Norðmenn tóku að sér gæslu íslenskra hagsmuna í London, en Frakkar sér gæslu breskra hagsmuna hér.“
Gera má ráð fyrir að svipaður háttur yrði hafður á yrði þetta gert að nýju nú. Íslendingar eiga aðild að Helsinki-samningnum s.k. milli Norðurlanda, sem felur í sér að starfsmaður í utanríkisþjónustu aðildarríkis aðstoðar ríkisborgara annarra norrænna ríkja, hafi þau ekki fulltrúa á staðnum.
Slit stjórnmálasambands fela hinsvegar ekki sjálfkrafa í sér uppsögn alþjóðasamninga sem eru í gildi milli viðkomandi ríkja. Hugsanleg uppsögn samninga, s.s. fríverslunarsamningsins sem er í gildi við Ísrael, væri sjálfstætt mál sem kallaði á sérstaka ákvörðun.
Þar sem ríki eru með útsenda fulltrúa hvort hjá öðru þekkist að þau stigmagni hin pólitísku skilaboð í nokkrum þrepum, án þess að slíta tengslum alveg, s.s. með því að kalla sendiherra heim tímabundið til skrafs og ráðagerða, fresta tilnefningu nýs sendiherra og fleira í þá áttina. Ríkin eiga þess þá kost að halda áfram samskiptum, þrátt fyrir pólitískan þrýsting.
Þessu er ekki að heilsa þar sem ríki hafa stjórnmálasamband án þess að hafa skipst á sendiherrum, líkt og í tilfelli Íslands og Ísraels. Benedikt Ásgeirsson er sendiherra Íslands gagnvart Ísrael, en hann hefur aðsetur í Reykjavík. Ísraelsmenn eru ekki með sendiherra á Íslandi, en hafa hér íslenskan ræðismann. Slit stjórnmálasambands leiða ekki sjálfkrafa til slita ræðissambands, samkvæmt Vínarsamningnum um ræðissamband.
Aðspurður um áhrif þess að stjórnmálasambandinu var slitið við Breta á sínum tíma segir Guðni að með því hafi íslensk stjórnvöld hnykkt á því hversu alvarlegum augum þau litu framferði þeirra. „Hafi einhver efast um það, í Washington eða höfuðstöðvum Nató í Brussel, hvað mönnum var heitt í hamsi hérna þá var þetta staðfesting á því og varð meðal annars til þess að Bretar sáu að þeir yrðu að gefa eftir,“ segir Guðni.
Hann telur að sambærilegt skref nú aldrei myndi þó hafa sömu áhrif, vegna ólíkrar stöðu ríkjanna. „Þetta yrði einstaklega táknræn aðgerð nú, sem myndi ekki skipta neinu einasta máli fyrir það sem er að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs.“