Lögreglan á Hvolsvelli er með mikinn viðbúnað í dag vegna þess fjölda sem kemur siglandi til Landeyjarhafnar frá Vestmannaeyjum og er fólki boðið upp á að blása í áfengismæli áður en það keyrir af stað til að kanna hvort það sé ökuhæft.
„Örugglega á annað þúsund sem komu að blása hjá okkur. Þó við séum með bíl niður frá þá halda margir af stað án þess að blása. Það eru þeir sem við erum að taka,“ segir Magnús Ragnarsson, lögreglumaður á Hvolsvelli, en lögreglan hefur haft afskipti af 18 bílum í dag og af þeim voru 8 bílstjórar kærðir fyrir ölvunarakstur en 10 voru undir refsimörkum og þeim því gert að stöðva bifreið sína. Samtals hafa 18 verið kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina og 20 bifreiðar stöðvaðar þar sem bílstjórum þeirra var gert að stöðva. Mældust þeir drukknir en þó undir refsimörkum.
Þetta er mikil aukning frá sömu helgi í fyrra en þá voru 4 kærðir fyrir ölvunarakstur. Magnús segir að aukninguna megi rekja til aukins viðbúnaðar lögreglu, að fleiri bílar hafi verið stöðvaðir í ár en í fyrra.
Að sögn Magnúsar hefur umferðin gengið slysalaust fyrir sig. „Það hefst með því að koma í veg fyrir að fólk fari akandi í slæmu ástandi upp á þjóðveginn,“ segir Magnús og bætir við að lögreglan hafi lítið orðið vör við hraðaakstur á svæðinu.
Lögreglan mun halda áfram að fylgjast með umferð á svæðinu fram á kvöld og áfram á morgun.