Segir dólgafemínisma ekki vinsælan

Eva Hauksdóttir
Eva Hauksdóttir Árni Sæberg
„Vondum skoðunum á að svara með rökum en ekki pólitískum ofsóknum,“ segir Eva Hauksdóttir, sem vakið hefur mikla athygli og umtal fyrir skelegg greinaskrif sín, sérstaklega gagnrýnin skrif um femínisma. Eva, sem er íslensku- og bókmenntafræðingur að mennt, býr nú í Glasgow, en hyggur á nám í lögfræði við Háskóla Íslands í haust.

Spurð hvort hún sé andstæðingur femínisma segir Eva stutt og laggott: „Já,“ og bætir við: „Femínismi er kynhyggja þar sem krafist er forréttinda fyrir annað kynið og hinu kyninu kennt nánast um allt sem miður fer í tilverunni. Mér finnst kvenhyggja ekkert skárri en karlhyggja. Þetta eru stefnur sem ganga út frá þeirri hugmynd að stríð ríki á milli kynjanna og eru ekki líklegar til að auka skilning og samhygð.“

Segir femínista hafa gott aðgengi að fjölmiðlum

Þegar hún byrjaði fyrst að skrifa um femínisma segist hún aðallega hafa verið að gagnrýna meðferð á gögnum þar sem gölluð tölfræði var notuð eða vísað í rannsóknir sem ekki sýndu það sem viðkomandi sagði. „Ég hélt um tíma að viðhorf mín til femínisma væru mjög óvinsæl en í dag held ég að sá dólgafemínismi sem hefur vaðið uppi á síðustu árum og áratugum sé alls ekki eins vinsæll og halda mætti af umfjöllunum. Femínistarnir hafa afar gott aðgengi að fjölmiðlum og töluvert mikil opinber völd, en almenningur er ekki eins hrifinn af þeim og ég hélt.“

Hún telur umræðuna í dag hafa opnast. „Þegar ég byrjaði að skrifa um femínisma voru margir, sérstaklega konur, sem höfðu samband við mig og sögðust vera sammála mér en ekki þora að segja það opinberlega. Þetta hefur breyst. Nú er fólk farið að taka hraustlega undir með mér og konur farnar að skrifa um svipaða hluti og ég hef gert.“

Hef ekki fengið marktæka gagnrýni frá femínistum

Hún segist ekki hafa fengið á sig marktæka gagnrýni frá femínistum. „Ég hef skrifað nokkrar greinar í Kvennablaðið þar sem ég gagnrýni kvenhyggju og femínistar hafa samband við ritstjórn, lýsa hneykslun sinni og krefjast þess að greinin verði fjarlægð. Þær fá alltaf sama svarið: Ykkur er velkomið að svara. En þær svara ekki. Ég fæ enga málefnalega gagnrýni, bara þöggunartilburði og fullyrðingar um að ég viti ekki hvað ég sé að segja, ég misskilji femínismann og sé með útúrsnúninga, án þess að nokkur geti útskýrt í hverju þeir útúrsnúningar eða misskilningur felist,“ segir hún.

„Ef maður fær gagnrýni sem byggir á rökum þá er hægt að nota hana til að fara lengra með umræðuna en rökvillur og skítkast er ekki eitthvað sem maður þarf að taka til sín. Ég hef reynt að halda uppi samræðu við femínista en það þýðir ekkert.“

Aðspurð hvort andstaða hennar við femínisma sé hluti af andstöðu hennar við pólitíska rétthugsun og forræðishyggju segir hún svo algjörlega vera. „Það sem fer mest fyrir brjóstið á mér er yfirvaldshyggjan sem gegnsýrir femínistahreyfinguna. Hugmyndin er sú að það eigi að berjast fyrir réttindum kvenna og betri heimi fyrir konur með því að taka fram fyrir hendurnar á fólki. Stóra systir á að ákveða hvað okkur sé fyrir bestu.“

„Ég hef ekki séð neitt gott koma út úr þessari óskaplegu fordæmingu á því að fólk hafi skoðanir sem falla ekki að fyrirfram ákveðnum gildum,“ segir hún. „Mér finnst til dæmis rasismi ömurlegur en það er fulllangt gengið þegar má ekki segja brandara um blökkumenn eða aðra hópa án þess að það sé flokkað sem hatursáróður. Það er líka mjög slæmt ef fólk má ekki tjá vondar skoðanir. Ég er algjörlega ósammála Snorra í Betel og finnst skoðanir hans á samkynhneigð viðbjóðslegar en mér finnst enn verra ef það á að banna fólki eins og honum að tjá skoðanir sínar. Vondum skoðunum á að svara með rökum en ekki pólitískum ofsóknum.“

Heftandi að þurfa blessun hópsins

Eva er óhrædd við að tjá skoðanir sínar og segir það heftandi að þurfa blessun hópsins.

„Ég hef aldrei lent í sérstökum vandræðum fyrir að hafa skoðanir sem víkja frá norminu. Hvað er það versta sem getur gerst ef þú segir skoðun þína? Jú, einhver getur rekið þessa skoðun ofan í þig – en um leið ertu búin að fá réttar upplýsingar og getur myndað þér nýja skoðun og haft rétt fyrir þér. Eða þá að einhver verður reiður við þig og hvað með það? Er þá búið að rústa lífi þínu? Á það að þykja gott að fólk sé ekki reitt við þig og haldi að þú hafir allt önnur viðhorf en þú hefur?“

„Það er kannski að einhverju leyti þægilegt að vera í ákveðnu liði en það hlýtur að vera heftandi að þurfa blessun hópsins til að þora að tjá sig og ég held líka að hjarðhugsun geri samfélaginu meira illt en gott,“ segir hún.

Ítarlegra viðtal má finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Eva Hauksdóttir
Eva Hauksdóttir Árni Sæberg
Eva segir dólgafemínisma ekki eins vinsælan og halda mætti
Eva segir dólgafemínisma ekki eins vinsælan og halda mætti AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert