Áfall að upplifa sig bjargarlausan

Sölvi eftir slysið
Sölvi eftir slysið Mynd/Sölvi Blöndal

„Fyrir ungan og fullfrískan mann eins og mig var það gífurlegt áfall að lenda inni á sjúkrahúsi og upplifa sig alveg vanmáttugan og bjargarlausan,“ segir Sölvi Blöndal, forsprakki hljómsveitarinnar Quarashi. Sölvi lenti í alvarlegu slysi á snjóbretti í janúar þegar hann féll fram af syllu og braut á sér bakið.

Hann var í góðra vina hópi í Hlíðarfjalli á Akureyri þann 19. janúar sl. og var efst í fjallinu að renna sér. „Ég var á talsvert mikilli ferð og kominn hálfa leið niður þegar ég fór fram af syllu. Ég féll fjóra og hálfan metra og lenti á bakinu. Ég gat ekki hreyft mig og sársaukinn var gífurlegur. Ég lá þarna öskrandi í algjöru tjóni þar til fólk kom og hlúði að mér,“ segir hann.

Sölvi var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann lá í viku á spítala. „Þetta var mikil lífsreynsla og ekki var alveg víst á tímabili hvort ég myndi hreinlega ná mér. En sem betur fer fór þetta allt eins vel og hugsast gat.“

Fór betur en á horfði 

Eftir að hafa náð bata setti hann sér markmið um að hlaupa tíu kílómetra innan næsta hálfa ársins og ætlar hann að efna það í Reykjavíkurmaraþoninu í águst þar sem hann hleypur til styrktar Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra. „Þetta var bæði persónulegt markmið fyrir mig og einnig þótti mér það frábært ef ég gæti orðið öðrum að liði í leiðinni,“ segir hann.

Þó svo að Sölvi hafi náð fullum bata í dag segir hann ástandið hafa horft illa við í byrjun. Það var tólfti hryggjarliður sem brotnaði og þurfti að sprauta hann með morfíni til þess að lina sársaukann.

„Þú finnur hvað fólk horfir á þig alvarlegum augum og veist að það er eitthvað mikið að. En ég var floginn í bæinn og það náðist að gera við mig. Daginn eftir gat ég staulast eitt eða tvö skref og þann næsta fimm til sex. Ég hafði sterkan vilja og var fljótur að koma mér að stað,“ segir hann og bætir glettinn við að hann hafi að vissu leyti verið heppinn því hann hafi í raun brotnað á besta stað upp á góðan bata að gera.

Nasaþef af því að vera ósjálfbjarga

„Ég fékk nasaþefinn af því hvernig það er að vera ekki sjálfbjarga og geta hreinlega ekki gengið. Að geta ekki snúið sér í rúminu og þurfa hjálp við að borða. Ég get því að einhverju leyti sett mig í spor þerra sem eiga um sárt að binda. En ég var gríðarlega heppinn. Það hefði til dæmis ekki þurft nema aðra vindátt  og ég hefði kannski lent öðruvísi og væri lamaður. Því ákvað ég að gefa það sem safnaðist til mænuskaddaðra,“ segir hann.

Um þremur vikum eftir slysið tjáði læknirinn Sölva að hann yrði góður á ný. „Hann sagði: „Þú verður hundrað prósent og ef þú vilt stökkva fram af bílskúr í spetember eða október máttu alveg gera það. Ef þú vilt fara á snjóbretti gerirðu það. En passaðu þig betur.““

Kraftaverkafólk á Landspítalanum

Sölvi er þakklátur starfsfólki bæklunardeildar Landspítalans og segir það vera kraftaverkafólk. „Þau sinna ótrúlegu starfi fyrir þá sem eiga um sárt að binda. Ég hafði aldrei lent á sjúkrahúsi eða slasað mig alvarlega. Þetta var ný reynsla fyrir mig og núna er ég að hlaupa átta mánuðum eftir slysið. Ég ætla mér að komast alveg yfir þetta.“

Aðspurður hvort snjóbrettið sé ekki ógnandi eftir lífsreynsluna viðurkennir hann að vera örlítið smeykur. „Ég er tíu sinnum meira lofthræddur en ég var en það eru bara smámunir miðað við að ég hef náð heilsu líkamlega. Ég er byrjaður að æfa mig og hef farið einhverja fimm til sex kílómetra í viku. Ég fer bara í dáleiðslu og losna við þessa lofthræðslu,“ segir hann hlæjandi og játar að hann muni ef til vill ekki fylgja læknisráðum alveg strax og henda sér fram af húsþaki

Þeim sem vilja heita á Sölva í Reykjavíkurmaraþoninu er bent á hlaupastyrks síðu hans.

Sölvi Blöndal lenti í snjóbrettaslysi í janúar en ætlar að …
Sölvi Blöndal lenti í snjóbrettaslysi í janúar en ætlar að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Sölvi segir kraftaverkafólk vinna á Landspítalanum.
Sölvi segir kraftaverkafólk vinna á Landspítalanum. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert