Lögreglan í Vestmannaeyjum lýsir eftir eigendum óskilamuna frá Þjóðhátíð á Facebook síðu sinni. Þjóðhátíðargestir virðast hafa passað einstaklega vel upp á föggur sínar í ár, en að sögn Halldórs Sigurðssonar, varðstjóra lögreglunnar í Vestmannaeyjum, kemur honum mikið á óvart hversu fáir munirnir eru.
„Mér finnst þetta alveg sáralítið sem er að koma hérna, en þetta er langmest úr dalnum,“ segir Halldór.
Öllu er hægt að týna og í óskilamununum má finna töluverðan fjölda af bakpokum og töskum, úlpur, svefnpoka, skó, húslykla og veski en einnig mikið af farsímum.
„Hér eru fullt af bakpokum, sumir tómir og það er mismikið í þeim. En það er ekkert hægt að bendla þá við neinn, en við reynum að fara í gegnum allt til að reyna að finna út hver á þetta. Það væri voðalega gott ef fólk hefði nafnið sitt í þessu, þó að það væri ekki annað,“ segir Halldór.
„Fyrir utan þetta eru ökuskírteini og persónulegt dót sem við birtum ekki á síðunni en reynum að koma frá okkur. Við reynum þá að hafa samband við viðkomandi,“ bætir hann við.
En hvernig fer með drykki sem kunna að leynast í bakpokunum? „Gestirnir myndu fá allt svoleiðis í hendur ef að þeir hafa aldur til,“ svarar Halldór.