„Ég get ekki bent á neitt ákveðið en heilt yfir held ég tiltrú á félaginu. Reksturinn þarf auðvitað að skila afkomu ef gengið á að hækka og ég held að okkur hafi tekist að framkvæma þær stækkanir sem félagið hefur farið í farsællega,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, sem tók við sem forstjóri Icelandair Group hf. í janúar 2008, í samtali við mbl.is.
Einsog fram hefur komið hefur gengi hlutabréfa félagsins Icelandair Group hækkað um 25 prósent seinustu tólf mánuði þrátt fyrir verkfallsaðgerðir. Þar segir Björgólfur margt koma til. Til að mynda bjóði flugfélagið upp á nýja áfangastaði og ferðaþjónustufyrirtækjum samstæðunnar á landinu hafi gengið vel. Þá hafi leiguflugsstarfsemi fyrirtækisins farið vaxandi.
„Icelandair Group, flugfélagið, hótelin, Iceland Travel og öll þessi félög njóta góðs af auknum ferðamannastraumi til landsins. Þetta er samspil fyrirtækja á landinu sem hefur skilað góðum árangri.“
Þá flutti félagið 355 þúsund farþega í millilandaflugi í júlí, sem eru 16 prósentum fleiri en í júlí í fyrra. Farþegafjöldinn er sá mesti í einum mánuði frá stofnun félagsins og þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem félagið flytur í einum mánuði fleiri farþega en sem nemur íbúatölu landsins.
Aðspurður um áhrif verkfallsaðgerða og kjaradeilna í fluggeiranum svarar Björgólfur: „Þær höfðu töluvert mikil áhrif. Við áætlum að beinn kostnaður hafi verið um 3,5 milljónir dollara. Þær stóðu sem betur fer ekki lengi.“
Deilurnar bitnuðu hvað mest á Icelandair en meira komi til, segir hann, þegar hækkandi gengi félagsins í heild sé skoðað. „Flugfélagið er vissulega hryggjarstykkið í samstæðunni en við bendum á að ferðaþjónusta á landinu hefur verið að skila meiri árangri. Hlutfallslega er mikil stækkun í minni fyrirtækjum samstæðunnar.“