Enn mikil óvissa um Fiskistofu

Ekki er hægt að ganga frá húsnæði fyrir Fiskistofu á Akureyri og ráða í lausar stöður fyrr en búið er að eyða lagalegri óvissu um flutninginn. Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, segir liggja á að fá niðurstöðu í málið.

Eyþór hefur farið norður og skoðað húsnæði og segir nokkra fýsilega kosti í boði. „En það er ekki hægt að taka skuldbindandi ákvarðanir fyrr en búið er að fara með málið í gegnum þingið, eyða lagalegri óvissu og eyrnamerkja fjármagn. Þá verður hægt að skoða þetta af einhverri alvöru en ég hef verið að undirbúa þetta með að skoða húsnæði þannig að það verði búið að sjá út bestu kostina þegar ákvörðun liggur fyrir,“ segir hann. Hann segir stofnuninni liggja á að fá niðurstöðu í málið þar sem að fyrr sé ekki hægt að ráða starfsfólk.

Þá segir hann enga aðra starfsmenn hafa ákveðið að flytja með stofnuninni norður. „Flestir eru búnir að lýsa því yfir að þeir ætli ekki. Það eru örfáir sem eru að velta þessu fyrir sér en enginn annar en ég hefur tekið á skarið,“ segir hann.

Þarf að skýra stöðu starfsfólks

Í júlí lýsti meiri­hluti bæj­ar­ráðs Akureyrar yfir vilja til þess að aðstoða þá starfsmenn sem vilja flytja með stofnuninni. Aðspurður segir Eyþór ekki ljóst í hverju slík aðstoð myndi felast. „Ég á eftir að setjast niður með bæjarstjóranum og sjá hvað þeir eru að tala um. Það verður þá væntanlega kynnt fyrir starfsfólki hérna í kjölfarið. Hér hefur það verið sett á oddinn að beiðni starfsfólk að skýra stöðu þeirra og sjá hver réttindi þeirra eru.“

Hann segir líklegt að heildarkostnaður við flutningana skýrist á næstu vikum og mánuðum. 

Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri
Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert