K100 verður GAY100

Mynd/K100

Útvarpsstöðin K100 mun breyta tímabundið um nafn á föstudaginn og heita GAY100 í tilefni af Gleðigöngunni sem haldin verður þann sama dag. Öll dagskráin verður miðuð að réttindabaráttu hinsegin fólks. 

„Við viljum fagna margbreytileikanum í samfélaginu, styðja við réttindabaráttu hinsegin fólks og að sjálfsögðu gera eitthvað skemmtilegt í tilefni þessarar frábæru hátíðar,“ segir Siggi Gunnars, útvarpsmaður á K100.5. „Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem útvarpsstöð gerir svona hér á Íslandi, að skipta algjörlega um gír í einn dag. Öllu efni á stöðinni verður breytt, logoið, stefin á milli laga, það sem stendur á skjánum í útvarpinu þínu og svo framvegis. K100 verður hreinlega ekki til þennan dag,“ segir Siggi. 

„Tónlistin verður líka aðeins í öðrum gír en venjulega. Til dæmis ætlum við að vera með Gay-Klassik klukkan tíu, í stað hinnar vinsælu K-Klassík þar sem við munum spila svokölluð gay anthem í heilan klukkutíma. Ég viðurkenni að það verður kannski smá steríótýpa í því,“ segir Siggi. 

Mikill gestagangur verður á stöðinni þann dag en Sigga Beinteins, Páll Óskar, Hinsegin kórinn og fulltrúar frá Hinsegin dögum og Samtökunum 78 hafa boðað komu sína. 

Siggi Gunnars, útvarpsmaður á K100.5
Siggi Gunnars, útvarpsmaður á K100.5 Mynd/K100.5
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka