Nokkuð er um að ferðamenn sem gista á tjaldsvæðinu við Stjórnarfoss á Kirkjubæjarklaustri og aðrir sem eiga leið hjá skoði fossinn og stökkvi jafnvel niður hann. Unga konan sem slasaðist við fossinn í gær ætlaði að skoða fossinn en hrapaði nokkra metra og lenti á urð.
Hún hugðist stytta sér leið og klifra yfir klettabelti með þeim afleiðingum að hún rann og féll átta til tíu metra. Unga konan, sem er 18 ára svissneskur ríkisborgari, var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala í gær og dvelur hún á gjörgæslu. Líðan hennar er stöðug og verður hún að öllum líkindum útskrifuð í dag.
Jón Hermannsson, í svæðisstjórn björgunarsveita Landsbjargar, segir að fossinn sé vinsæll áfangastaður ferðamanna. Aðspurður segir hann að aðstæður í gilinu séu ekki hættulegar. Unga konan hafi aftur á móti valið að stytta sér leið og klifra yfir klettabelti, og því hafi farið illa.
Áverkar ungu konunnar voru þess eðlis að ákveðið var að flytja hana ekki með sjúkrabíl úr gilinu, heldur var þyrlu Landhelgisgæslunnar flogið í gilið og síðan innar í það. Gilið við Stjórnarfoss er nokkuð þröngt en í tilkynningu frá Landsbjörgu kom fram að að þyrlan hefði lent við mjög erfiðar aðstæður.
Að sögn Sigurðar Ásgeirssonar, flugstjóra þyrlu Landhelgisgæslunnar, lenti þyrlan í urð undir klettunum þar sem unga konan klifraði. Ekki var mikið pláss til að lenda þyrlunni og var annað hjól hennar í ánni.
Gott veður var í gær og bjart í gilinu og segir Sigurður að aðgerðin hafi tekist vel. Ekki hafi tekið langan tíma að komast að konunni og flytja hana burt.
Frétt mbl.is: Líðan ungu konunnar stöðug.