Andlát: Kristján Karlsson skáld

Kristján Karlsson.
Kristján Karlsson.

Kristján Karlsson, skáld og bókmenntafræðingur, lést þann 5. ágúst síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu Mörk, 92 ára að aldri.

Kristján fæddist 26. janúar 1922 að Eyvík á Tjörnesi. Foreldrar hans voru Pálína Guðrún Jóhannesdóttir húsmóðir og Karl Kristjánsson alþingismaður. Maki Kristjáns var Elísabet Jónasdóttir bókavörður, f. 8.4. 1922 sem lifir mann sinn. Fyrri maki hans var Nancy Davies, f. 22.10. 1922, d. 21.8. 1949.

Kristján útskrifaðist með stúdentspróf frá MA árið 1942. Eftir það hélt hann utan og lauk BA-gráðu í enskum bókmenntum frá University of California í Bandaríkjunum árið 1945 og MA-prófi í samanburðarbók menntum frá Colombia University árið 1947. Eftir námið kom Kristján aftur til Íslands og starfaði sem ráðunautur hjá bókaútgáfunni Norðra til ársins 1948 þegar hann hélt aftur til New York. Þar starfaði hann sem bókavörður við Fiske-safn við Cornell-háskóla til ársins 1952. Hann fluttist til Íslands að nýju og starfaði við útgáfustörf hjá Bókaútgáfunni Helgafelli til 1984. Kristján starfaði í ýmsum félögum og nefndum, m.a. Íslandsdeild PEN og var formaður hennar 1974-1982. Hann sat í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags, var forseti Hins íslenska þjóðvinafélags 1984-1985 og í stjórn Minningarsjóðs Björns Jónssonar 1985-2000.

Kristján gaf út hin ýmsu ritverk, ásamt því að þýða ótal bækur. Meðal verka eftir hann eru Kvæði, 1976, New York, 1983 og Kvæði 03, 2003. Einnig skrifaði hann smásagnasafnið Komið til meginlands frá nokkrum úteyjum sem kom út árið 1985 og ritgerðasafnið Hús sem hreyfist sem kom út árið 1986.

Þá liggja eftir Kristján fjölmargar þýðingar og má þar nefna Smásögur eftir William Faulkner 1956.

Útgáfur með ritgerðum eftir Kristján voru meðal annars Ljóðasafn eftir Tómas Guðmundsson, 1961, Halldór Kiljan Laxness, 1962, Gunnlaugur Blöndal, 1963, Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, 1969 og Óbundið mál I-II eftir Einar Benediktsson, 1980-1981, auk fleiri verka. Þá gaf Kristján út tvö viðamikil verk: Íslenskt ljóðasafn I-V, 1974-1978 og Íslenskar smásögur I-VI, 1982-1985. Heildarsafn Kristjáns, Kvæðasafn og sögur, 1976-2003, kom út 2005 og Kvæðaúrval, 2009. Kristján hlaut Davíðspennann, bókmenntaverðlaun Félags íslenskra rithöfunda, árið 1991 og verðlaun Rithöfundasjóðs ríkisútvarpsins 1992. Útförin fer fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert