Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson mun innan tíðar birtast á hvíta tjaldinu í bandarískri hasarmynd af yfirnáttúrulegu tagi, með stórstjörnunum Michael Caine og Elijah Wood, að ónefndum Vin Diesel.
Myndin heitir „The Last Witch Hunter“ eða Síðasti nornaveiðarinn, eftir því sem fram kemur á kvikmyndavefnum Wrap. Ólafur fer þar með hlutverk nornar, sem berst við Vin Diesel, hinn ódauðlega nornaveiði.
„Mér líst bara rosa vel á þetta hlutverk,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is í dag og kvaðst vera spenntur fyrir hlutverkinu. „Ég fór í prufur fyrir hlutverkið í maí og fékk að vita í vikunni að ég fengi hlutverkið.“
Ólafur er ekki við eina fjölina felldur þegar kemur að hlutverkum sínum, en aðspurður hvort hann sé meira fyrir fantasíu- og hryllingsmyndir, eins og The Last Witch Hunter, eða löggu- og bófaefni eins og þættina True Detective, sem hann fór með hlutverk í, segir Ólafur:
„Ég er rosalega mikil alæta á efni. Ég hef mikið ímyndunarafl í vísindaskáldskap og hrylling og allt það. Ef efnið er gott finnst mér það skemmtilegt. Það er aðalatriðið, ekki af hvaða tegund efnið er heldur hvort það er vel gert.“
„Öll verkefni eru öðru vísi en samt eins. Þetta verður tekið upp í Pittsburg, sem er áhugavert. Ég hef aldrei komið þangað. Í raun er þetta bara enn eitt tækifærið til að láta ljós sitt skína og ég er mjög þakklátur fyrir það.“
Um ákveðna frumraun er að ræða þar sem Ólafur hefur aldrei leikið norn áður. „Mér hefur einu sinni boðist að leika norn, í Macbeth, en ég gat ekki gert það þá.“
Þá er hann líka með hlutverk í prufuþætti (e.pilot) hjá AMC, sjónvarpsstöðinni sem framleiðir Breaking Bad þættina kunnu, Mad Men, Walking Dead og fleiri þætti. „Þetta er sitcom þáttur sem heitir We Hate Paul Rever.“ Ekki er um fyrsta hlutverk Ólafs í prufuþætti af þessu tagi að ræða.
Þátturinn er grínþáttur og fjallar um tvo bræður í leit af sæmd og viðurkenningu í Boston, en Ólafur gat ekki tjáð sig um sitt hlutverk að öðru leiti en að það væri skemmtilegt.
„Maður er alltaf í svo skringilegum aðstæðum að geta ekki talað um neitt sem stendur ekki í einhverri fréttatilkynningu,“ segir Ólafur Darri.
Myndin The Last Witch Hunter er í leikstjórn Breck Eisner og hefjast tökur í september. Einnig fer Rose Leslie með hlutverk, sem margir Íslendingar kannast við úr Game of Thrones.
Sjá einnig grein The Wrap.