Sprengjuflugvél af gerðinni Avro Lancaster úr seinni heimsstyrjöldinni er nú stödd á Íslandi. Vélin er oft kölluð Vera en nafn sitt dregur hún af einkennisstöfum sínum sem merktir eru á hlið vélarinnar. Vera var smíðuð árið 1945, rétt eftir að heimsstyrjöldinni lauk, og sá því aldrei orrustu.
Vera millilendir hér á ferð sinni frá Kanada til Bretlands, þar sem hún mun fljúga við hlið annarrar Lancaster vélar en þær eru einu flughæfu vélar sinnar gerðar sem eftir eru í heiminum.
Ferðin er flogin til að heiðra minningu áhafnarliða bresku sprengjusveitanna sem létu lífið í síðari heimsstyrjöldinni.
Vélin er hvorki búin súrefnis- né loftþrýstibúnaði svo henni er jafnan flogið í um 9.000 feta hæð. Farþegaþotur fljúga vanalega í um 37.000 feta hæð.
Það er draumur flestra flugáhugamanna að fá að sitja í Lancaster en eins og fjallað var um í frétt mbl.is eru sumir tilbúnir til að greiða háar fjárhæðir fyrir flugferð í slíkri vél.
Margir flugáhugamenn gerðu sér ferð niður á Reykjavíkurflugvöll til að bera vélina augum en slíkt tækifæri gefst ekki á hverjum degi
Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá viðtal við Don Schofield, yfirflugmann Lancastervélarinnar.