„Þetta er glæsilegt, ég hef aldrei séð svona mikið af krækiberjum“, segir Trausti Sveinsson, berjaáhugamaður í Bjarnargili í Fljótum í Skagafirði. Hann er bjartsýnn á góða berjasprettu á Norðurlandi og á von á því að gott verði að tína bláberin eftir um hálfan mánuð.
Á þessum tíma árs iða margir í skinninu að komast út í móa og fylla fötur og box af berjum. Berin eru holl og hægt er að nýta þau á ýmsan hátt í matargerð. Berin spretta þó að sjálfsögðu ekki vel nema veðurskilyrðin séu hagstæð. Í ár virðast íbúar Austurlands og Norðurlands hafa dottið í lukkupottinn.
Þrátt fyrir kaldan og snjómikinn vetur á Norðurlandi segist Trausti hafa góða tilfinningu fyrir berjasprettunni í ár. Hann segir að hlýindi sumarsins hafi haft góð áhrif á berjalöndin og þau beri þess greinilega merki að skilyrðin hafi verið hagstæð. Hann bendir á að lyngið komi vissulega ekki allt jafn vel undan vetri. Þar sem snjórinn hafi safnast saman er lyngið lengur að taka við sér.
„Krækiberin eru aftur á móti á holtunum og þar er mjög góð spretta,“ segir Trausti. Hann nýtir berin sem hann tínir fyrir heimilið en selur þau einnig. Þann 19. júlí síðastliðinn tíndi hann fyrstu berin í ár en það er heldur fyrr en síðustu ár.
Nokkuð er um að hópar komi frá Reykjavík til að tína í kringum Bjarnargil. Trausti lóðsar gestina um berjalöndin en kona hans rekur ferðaþjónustu. Um er að ræða Íslendinga en erlendu ferðamennirnir hafa enn sem komið er ekki mikið sótt í ferðirnar.
Aðspurður segist Trausti ekki hafa upplýsingar um berjasprettu á öðrum stöðum á landinu. Hann segist aftur á móti hafa góða tilfinning fyrir sprettunni á Norðurlandi.
Á vefnum berjavinir.com og Facebook-síðu Berjavina má lesa umsagnir berjaáhugamanna sem deila upplýsingum um sprettu berja.
„Síðustu fréttir frá Súðavík. Hlíðin fyrir ofan bæinn er gott berjaland og þurfa bæjarbúar ekki að leita langt til að finna berin. Kristel Þórðardóttir skrapp í hlíðina 6. ágúst til að kanna sprettuna. Kristel sendi okkur meðfylgjandi myndir og segir að aðalbláberin séu langt á undan bláberjunum í þroska. Útlitið er því gott í Súðavík...,“ segir meðal um berjasprettu í Súðavík.
„Stutt frétt frá Búðardal sem gefur til kynna að berjasprettan í Dölum sé ágæt. Það skal tekið fram að sá sem tíndi þessi ber vann hinn eftirsótta titil Fyllukeppnismeistari Bláberjadaga í Súðavík 2012 Þessi keppni er árlegur viðburður á Bláberjadögum í Súðavík. Fyllumeistarinn heitir Jón Trausti Markússon en hann tíndi berin á fyrri myndinni á örskotsstund,“ segir um sprettuna í Búðardal.
Á vef Berjavina segir að ljóst sé að berjasprettan í ár verði með víða með minna móti vegna tíðarfars sumarsins. Staðan virðist því vera eins og oft áður og þá er líklegt að höfuðborgarbúar muni fara lengra frá bænum til að næla sér í ber.
„Þó eru á þessu undantekningar því fréttir af berjasprettunni á Austurlandi eru góðar. Þá eru fréttir af óvenjugóðri berjasprettu á Norðurlandi sérstaklega í Eyjafirðinum. Einnig berast fréttir frá Vestfjörðum....“, segir á síðunni.
Suðurland og Vesturland virðist ekki geta státað af góðu berjaári, eftir því sem kemur fram á vefsíðu Berjavina. „ Annars er ekki öll nótt úti ennþá því með nokkrum góðum sólardögum getur staðan batnað til mikilla muna. Þegar á heildina er litið má ef til vill segja að berjasprettan sé í meðallagi staðbundin með góðri sprettu inn á milli.“
Frétt mbl.is: Íslensku berin komin í búðir.