Hún var löng, biðröðin fyrir framan nýja veitingastaðinn Dirty Burger & Rib í dag. Staðurinn opnaði með pompi og prakt klukkan fjögur í dag og af því tilefni var allt á matseðlinum frítt, á meðan birgðir entust.
Fyrstu gestir, þeir svengstu, voru mættir um þrjúleytið og myndaðist tiltölulega fljótt löng biðröð. Staðurinn sjálfur er ekki ýkja stór, tekur um fimmtán manns í sæti, og var því hleypt inn í hollum.
Veitingastaðurinn stendur við bensínstöðina Orkuna á Miklubraut, á móti Kringlunni. Athygli vekur að einungis tveir réttir eru á boðsstólnum, svínarif og hamborgari.
Agnar Sverrisson opnar staðinn en hann er eini íslenski kokkurinn sem hlotið hefur svokallaða Michelin-stjörnu viðurkenningu.
Staðurinn var opinn frá klukkan fjögur til átta í kvöld og verður aftur opinn á morgun, en þá frá klukkan ellefu að morgni til tíu að kveldi.
Sjá frétt mbl.is: Allt frítt á Dirty Burger & Ribs