Óska eftir skýringum á framúrkeyrslu

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/Ómar

Ákveðið hefur verið að kalla fulltrúa ráðuneytanna og Alþingis á fund fjárlaganefndar í næstu viku til að skýra út af hverju stofnanirnar hafa farið fram úr fjárheimildum sínum.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Framúrkeyrsla nokkurra stofnana, samkvæmt sex mánaða uppgjör á fjárreiðum ríkissjóðs, kemur Vígdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, á óvart en í samtali við Ríkisútvarpið sagði hún tíðindin vera mikil vonbrigði.

„Við ætlum að grípa til þess að funda í fjárlaganefnd í næstu viku og fá til okkar ráðuneytin sem koma til með að útskýra þetta fyrir okkur, hvers vegna þessar stofnanir eru að fara fram úr fjárheimildum,“ sagði Vigdís. Í kjölfarið yrði það síðan metið hvort skýringarnar væru fullnægjandi. Séu þær það ekki, þá verða fulltrúar stofnanana sjálfra, þ.e. þeirra sem fara fram úr fjárheimildum, kallaðir til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert