Sjónarvottur að árásinni á Frakkastíg segir að karlmaður á fertugsaldri hafi haft í frammi ógnandi hegðun á Bar 7 við Frakkastíg. Sá hinn sami var færður í fangageymslur eftir að hann stakk mann fjórum sinnum í brjóstholið.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að tveir menn á fertugsaldri hafi tekist á.
„Annar þeirra hlýtur fjögur stungusár, sem voru ekki lífshættuleg, en árásin sem slík er lífshættuleg. Hann var fluttur á sjúkrahús og útskrifaður í gærkvöldi. Sárin voru ekki það alvarleg að það gæfi tilefni til að hann dveldi lengur á sjúkrahúsinu,“ segir Friðrik.
Árásarmaðurinn er í vörslu lögreglu, en hann var handtekinn á vettvangi. Skýrslutökur munu fara fram í dag. Mennirnir voru báðir í annarlegu ástandi, en ekki er vitað hvort það hafi verið sökum áfengis eða fíkniefna.
Ekki var hægt að yfirheyra árásarmanninn í nótt.
Samkvæmt sjónarvotti að árásinni var þar Íslendingur sem stakk erlendan mann mörgum sinnum í brjóstholið.
Mennirnir höfðu setið á Bar 7 á Frakkastíg þar sem árásarmaðurinn var með óspektir og ógnandi tilburði við fórnarlambið sem og aðra gesti. Hafði hann meðal annars nokkrum sinnum dregið upp hníf úr vasa sínum. Til átaka kom á milli Íslendingsins og mannanna og drógust þau út af barnum.
Tveir erlendir menn voru með þeim sem stunginn var, en mennirnir tóku af sér beltin í því skyni að nota þau sem vopn gegn Íslendingnum. Einn mannanna sló Íslendinginn í höfuðið með beltissylgjunni svo að mikið blæddi úr höfði hans. Að sögn sjónarvotta hljóp hann þá upp að gatnamótum Frakkastígs og Laugavegar og gekk þar í hringi, eins og hann væri í brjálæðiskasti. Þá tók hann á rás niður Frakkastíg með hnífinn í hendi og stakk erlenda manninn margsinnið í brjóstið.