Mörg þúsund látið laga í sér sjónina með leysi

Það eru ekki aðeins Íslendingar sem láta laga sjónina hér …
Það eru ekki aðeins Íslendingar sem láta laga sjónina hér á landi því nokkuð er um að fólk frá nágrannalöndum, sérstaklega Færeyjum, komi hingað í leysiaðgerð. mbl.is

Þrjár stofur sem bjóða upp á leysiaðgerðir á augum eru nú starfræktar hér á landi, allar í Reykjavík. Sú nýjasta, Augljós í Glæsibæ, opnaði árið 2012 en Lasersjón í Ármúla er nú að hefja sitt 15. starfsár og Sjónlag í Glæsibæ hefur verið starfandi síðan 2001.

Reikna má með að hátt í 15 þúsund manns hafi látið laga í sér sjónina með leysi á þessum þremur stofum, en Lasersjón hefur gert sjónlagsaðgerðir á rúmlega sjö þúsund manns frá upphafi og Sjónlag á rúmlega fimm þúsund manns. Þetta eru þó ekki eingöngu Íslendingar því nokkuð er um að fólk frá nágrannalöndum, sérstaklega Færeyjum, komi hingað í leysiaðgerð.

„Fyrir hrun var sama verð á leysiaðgerðum hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum en eftir fall krónunnar hafa þessar aðgerðir orðið mun ódýrari hér. Aðgerð sem nú kostar 250 þúsund krónur á Íslandi er seld á meira en 400 þúsund kr. í Danmörku. Við höfum alla tíð haft nokkuð af fólki, einkum frá Færeyjum og annars staðar af Norðurlöndum sem leitað hefur til okkar. Eftir að verð féll hér í árslok 2008 jókst sú umferð talsvert, en hefur heldur minnkað aftur nú síðustu tvö ár,“ segir Þórður Sverrisson, sérfræðingur hjá Lasersjón.

Í leit að auknum lífsgæðum

Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Sjónlags, segir að í kringum efnahagshrunið hafi hægt á komum Íslendinga í leysiaðgerðir en það hafi náð sér vel á strik aftur.

„Núna virðist fólk vera að nota peninginn aðeins meira í sjálft sig og sækist eftir auknum lífsgæðum. Mesta aukningin hjá okkur er í augasteinsaðgerðum á eldra fólki en það vill geta stundað sín áhugamál óheft fram eftir ævinni.“

Kristinn segir að töluvert af útlendingum, þá aðallega Færeyingum, komi í aðgerðir í Sjónlagi og mikið af Íslendingum sem búi annars staðar á Norðurlöndunum. Mesta ásóknin í leysiaðgerðir er á vorin. Ekki geta allir látið laga sjón sína með leysi að sögn Kristins, t.d. þeir sem eru með þunna hornhimnu, en með nýrri tækni hafi opnast möguleikar á að taka fleiri í aðgerðir því nýju tækin eru nákvæmari.

„Við fjárfestum fyrir einu og hálfu ári í nýjum tækjum en tæknin er í stöðugri þróun og að verða nákvæmari. Með eldri tækni er notaður hnífur til að skera hornhimnuna en nú er það gert með leysi svo það kemur enginn hnífur að auganu, allt gert með leysi,“ segir Kristinn.

Tiltölulega einföld aðgerð

Þórunn Elva Guðjohnsen, framkvæmdastjóri Augljóss Laser Augnlækninga, segir starfsemina ganga frábærlega hjá þeim. Hún segir leysiaðgerðir á augum komnar til að vera enda stór hluti fólks sem þurfi að nota gleraugu.

„Á síðasta ári voru framkvæmdar yfir þúsund aðgerðir í Augljósi. Það kemur nokkuð af útlendingum til okkar, aðallega Færeyingum, svolítið annars staðar frá Norðurlöndunum og eitthvað frá Bretlandi. Þetta er algengasta aðgerð í heimi sem er framkvæmd utan heimalandsins því hún er tiltölulega einföld. En það verður að segjast eins og er að sókn Íslendinga í aðgerðir hjá okkur er fram úr öllum vonum og samkvæmt erlendum tölum lítur út fyrir að Íslendingar séu með heimsmet á þessu sviði,“ segir Þórunn Elva.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert