Rúmlega 1,4 milljarði varið án eftirlits

Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari og formaður nefndar um rannsókn …
Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari og formaður nefndar um rannsókn á Íbúðalánasjóði, heldur á skýrslu um sjóðinn sem kynnt var í fyrra. Kostnaður við skýrslur rannsóknarnefnda Alþingis er yfir 1400 milljónum króna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Í ársfjórðungsuppgjöri Fjársýslu ríkisins kemur fram að um 106 milljónum króna var varið til rannsóknarnefnda Alþingis en ekki var gert ráð fyrir neinu fjárframlagi til málaflokksins í fjárlögum yfirstandandi árs. Rannsóknarskýrslur Alþingis hafa kostað 1400 milljónir króna. 

Karl Garðarssson, sem situr í fjárlaganefnd gagnrýnir kostnað við skýrslurnar sem hann segir að hafi verið unnar án eftirlits en nefndarstarfið fellur undir forsætisnefnd Alþingis. 

Fram hefur komið að rannsóknarskýrsla Alþingis kostaði rúmar 450 milljónir, skýrslan um stöðu Íbúðarlánasjóðs um 250 milljónir króna en skýrslan um fall sparisjóðanna rúmar 600 milljónir króna.  

Enn að streyma inn reikningar 

Þegar þessar 106 milljónir hafa bæst við er kostnaðurinn rúmar 1400 milljónum króna. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, sem situr í fjárlaganefnd, gagnrýnir vinnubrögð Alþingis. Enn eru að streyma inn reikningar vegna skýrslugerðanna á þessu ári. 

 Rannsóknarnefnd um bankahrunið var sett á laggirnar árið 2008 en hinar tvær árið 2011. Fyrsta skýrslan birtist í apríl árið 2010, en skýrslan um Íbúðalánasjóð var birt í júlí árið 2013 og skýrslan um fall Sparisjóðanna birtist í apríl á þessu ári. 

Reikningar vegna skýrslugerðanna voru enn að berast á þessu ári.  „þessu má líkja við það ef stofnun myndi gera eigin áætlanir og svo myndi hún fara fram úr þeim, en í kjölfarið yrði engu að síður allt samþykkt sem aukalega myndi koma fram,” segir Karl.      

 „Farið var af stað með nefndirnar án þess að fyrir lægju fjárhagsáætlanir,” segir Karl.

Ákváðu sjálfar rannsóknarefnið

Hann gagnrýnir það að nefndunum hafi ekki verið settar neinar skorður. „Nefndirnar áttu í raun að ákvarða það sjálfar að hvað þær ættu að fjalla um og fyrir vikið urðu rannsóknirnar allt of umfangsmiklar,” segir Karl.

 Hann bendir á að þinginu hafi skort allt eftirlit með nefndunum. „Það er hægt að réttlæta kostnaðinn við gerð rannsóknarskýrslu Alþingis sem var gríðarlega umfangsmikið verk. Hins vegar er erfiðara að átta sig á því hvers vegna þessi gríðarlegi kostnaður er til kominn vegna hinna skýrslnanna” segir Karl.   

Karl Garðarsson
Karl Garðarsson mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert