Fordómafull ummæli um múslima algengust

Moska í Aserbaídsjan.
Moska í Aserbaídsjan. AFP

Í nýrri greiningu á hatursorðræðu á íslenskum netfréttamiðlum kemur fram að töluvert ber á ummælum sem einkennast af kynþáttafordómum, byggðum á staðalmyndum um hópa fólks.

Af þeim 14.815 ummælum sem voru lesin fyrir greininguna voru 75% skrifuð af körlum og 25% af konum. Algengast er að fordómafull ummæli séu sett fram í garð múslima. Einnig eru algeng ummæli sem einkennast af þjóðernishyggju og ný-rasisma.

Greiningin var kynnt á fundi mannréttindaráðs Reykjavíkur í dag. Greining á hatursorðræðu er liður í að framfylgja starfsáætlun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014.

Í greiningunni kemur einnig fram að merkjanlegur munur er á ummælum í fréttum, greinum eða viðtölum þar sem einstaklingur af erlendum uppruna tjáir sig um samskonar eða svipað mál og Íslendingur. Í þeim tilfellum þar sem einstaklingur af erlendum uppruna tjáir sig er mikið um svívirðingar í garð hans/hennar sem einstaklings og settar fram athugasemdir eins og „að það eigi bara að senda þetta fólk heim til sín.“ Fólki af erlendum uppruna virðist samkvæmt þessu ekki líðast að hafa gagnrýna rödd í samfélaginu.

Einnig kemur fram að fordómafull ummæli og málflutningur þeirra sem vilja verja þau lýsa oft skorti á þekkingu á hver takmörk tjáningarfrelsisins eru og hvaða lög og mannréttindaákvæði eru í gildi í landinu. Þá segir í greiningunni að beint samhengi sé á milli þess hvaða viðhorf eru sett fram í umræðukveikjunni og ummælunum við henni. Þannig leiði fordómafull umfjöllun af sér fordómafull ummæli. Því gegni fjölmiðlar mikilvægu hlutverki og geti haft áhrif á umræðuna með framsetningu á efninu sem þeir birta.

Í greiningunni  er sérstaklega fjallað um umræðu um byggingu mosku í Reykjavík þar sem komu fyrir gróf ummæli sem einkennast af ný-rasisma, kynþáttahyggju og þjóðernishyggju. Meðal annars voru settar fram morðhótanir í garð eins af forsvarsmönnum Félags múslima á Íslandi og aðrar persónuárásir. Fram kemur að um það bil 8–10 manna hópur sé mjög virkur í umræðunni um byggingu mosku og búsetu múslima á Íslandi. Nokkrir af þeim halda úti vefsíðum þar sem settur er fram haturs- og hræðsluáróður gagnvart múslimum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert