Ingjaldur Hannibalsson, prófessor og fyrrverandi deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, kom á sunnudaginn heim úr sex vikna ferðalagi. Með ferðalagi batt hann endahnútinn á margra ára verkefni, að heimsækja öll 193 þátttökulönd Sameinuðu þjóðanna.
Áður en hann hélt af stað átti hann sex lönd eftir á listanum. Á meðal þeirra voru lönd sem erfitt getur reynst að heimsækja, meðal annars Írak, Afganistan, Miðbaugs-Gínea og eyríkið Nárú, sem var fyrst á dagskrá.
„Til þess að komast til Nárú, þurfti ég að fara fyrst til Brisbane í Ástralíu því það er einungis flogið til Nárú þaðan. Landið er um fjögurra tíma flugleið í norð-austurátt frá Brisbane. Það liggur nokkurn veginn við miðbaug í miðju kyrrahafinu.“
Nárú er afar lítil land og er hringvegurinn umhverfis eyjuna til að mynda aðeins 18 km að lengd. „Það tók mig 2 tíma að skoða eyjuna, en ég varð að vera þar í þrjá sólarhringa, því það er aðeins flogið þangað tvisvar í viku,“ segir Ingjaldur og bætir stuttlega við um sögu eyjunnar:„Þetta ríki var mjög ríkt á áttunda og níunda áratugnum því það voru margar fosfatnámur þar. En þegar fosfatið tæmdist, þá höfðu þeir ekkert annað. Ein helsta tekjulind þeirra í dag er að passa hælisleitendur sem vilja komast til Ástralíu. Þeir eru þá sendir til Náru þar sem þeir eru geymdir á meðan verið er að taka ákvörðun um það hvort þeir fái hæli eða ekki.“
Eftir stutt stopp í Nárú var ferðinni heitið til Afganistan. Flugvöllurinn sem Ingjaldur lenti á í Kabúl, hafði orðið fyrir árás tveimur dögum áður. „Ég bjó á hóteli nálægt flugvellinum þar sem öryggismálin voru í góðu lagi. Það er níu metra hár veggur sem umlykur hótelið og það var leitað á öllum sem komu inn, bílar skoðaðir mjög vandlega, og inná hótelinu voru margir vopnaðir verðir sem gættu þess að allt væri í lagi. Eftir að ég skráði mig inn á hótelið fékk ég 15 mínútna fyrirlestur um öryggismál. Ég gat skoðað borgina og fékk bíl frá hótelinu og starfsmaður í móttökunni kom með mér og sagði mér frá borginni. Það var góður eftirmiðdagur,“ segir Ingjaldur.
Þá lá ferð Ingjalds til Riyadh í Sádí-Arabíu, en hann hafði fengið boðsbréf frá Íslendingi sem starfar fyrir fyrirtæki þar í landi. Það setti svip sinn á dvöl Ingjalds í landinu, að Ramadan-hátíð múslima var í fullum gangi á meðan á dvöl hans stóð.
„Það var eftirminnilegt að hann fór með mig í verslunarmiðstöð klukkan tíu um kvöld, og þá var miðstöðin að lifna við.Vegna Ramadan má fólk ekki borða frá klukkan þrjú á morgnanna til klukkan sjö á kvöldin. Þarna voru fjölskyldur með lítil börn að koma og versla og leika sér í leiktækjum svo hún iðaði öll af lífi.“
„Á daginn var allt lokað, og ekkert að gera út af Ramadan. Þegar ég skráði mig inn á hótelið spurði ég hvenær væri morgunmatur. Þá svöruðu þeir: „Seven.“. Þá spurði ég: „Sjö til tíu?“ Þeir svöruðu: „Seven.“ Þá spurði ég aftur: Sjö til níu?“ „Seven,“ var aftur svarið. Ég fór niður um morguninn og þá var enginn matur, en klukkan 7 um kvöldið báru þeir loks fram morgunmatinn!“
Áhugaverðustu staðir borgarinnar voru lokaðir vegna hátíðarinnar. „Það var eitt safn í borginni sem virtist vera áhugavert, og eitt gamalt virki, en þetta var lokað. Hugsanlega opnaði þetta á kvöldin, en ég vildi ekkert vera mikið á flækingi eftir myrkur,“ segir Ingjaldur.
Eftir að hafa skoðað Riyadh lá för Ingjalds til Íraks. Hann heimsótti þar borgina Erbil í Kúrdistan í Írak. Auðveldara er að sögn Ingjalds að komast inn í landið í Norðurhlutanum, því ekki þarf vegabréfsáritun þar, öfugt við suðurhlutann og höfuðborgina Bagdad.
„Í Erbil var í sjálfu sér allt með kyrrum kjörum. Að vísu var heitt, en ég gat leigt mér bíl og fengið leiðsögumann sem sýndi mér borgina og nágrennið. Það var mjög skemmtilegt,“ segir Ingjaldur en hann setur þó ástandið í samhengi við fréttir af ástandinu sem nú ríkir í Norðurhluta Íraks.
„Það hafa verið að berast fréttir síðustu daga um að ISIS sé að nálgast borgina. Ég sá einhver staðar að þeir væru ekki nema um 25 km frá henni, þannig að á mjög skömmum tíma hefur ástandið breyst mjög mikið.“ Ingjaldur bætir því við að hann hafi upprunalega valið að fara til Erbil því sú borg átti að vera örugg.
Eftir að hafa skoðað Erbil tók við dvöl í Mið-Evrópu þar sem Ingjaldur fór á tónlistarhátíðir í Bregenz, Salzburg og Munchen. Þaðan lá svo ferð hans til Miðbaugs-Gíneu, en afar erfitt getur verið að fá vegabréfsáritun þangað. Á meðan á ferðalagi stóð, var hann stöðugt að vinna í því að fá áritun þangað, og þann 15. júlí lá ljóst fyrir að það tækist.
Í Miðbaugs-Gíneu leigði hann bíl og skoðaði borgina. Hann ber fólkinu í landinu söguna vel, líkt og raunar í öllum löndum sem hann hefur skoðað. „Mér finnst fólkið alls staðar eins, fólkið er gott. Ef maður er kurteis og brosandi þá fær maður aðstoð og fólk er vingjarnlegt á móti. Það er mín niðurstaða af þessum ferðalögum, að fólk er alls staðar eins.“
Frá Miðbaugs-Gíneu lá leið hans til Saó Tóme, eyríkis undan ströndum Nígeríu og Gabon. Var það síðasta ríkið af öllum 193, og segir hann að það hafi verið eina ríkið af þessum síðustu sex sem hann heimsótti, sem hann gæti hugsað sér að dvelja í yfir lengri tíma. Áfanganum var svo fagnað á veitingastað í landinu.
„Loftslagið er þolanlegt og landið er tiltölulega öruggt. Fólkið er vingjarnlegt og þarna fór ég aftur í dagsferð um eyjuna og endaði á mjög skemmtilegum veitingastað sem væri talinn góður alls staðar í heiminum. Þannig að það var ágætt að enda þetta ævintýri með þeim hætti.“
Við tók svo 60 klukkustunda ferðalag til þess að komast heim til Íslands, þar sem hann lenti á sunnudaginn síðastliðinn.
Aðspurður hvort hann muni eftir öllum löndunum sem hann hefur heimsótt, svarar hann því játandi.
„Það er mesta furða. Einn samstarfsmaður minn sendi nýlega á alla starfsmenn deildarinnar tölvupóst með lista yfir öll löndin. Ég ákvað að renna yfir listann til að vera alveg viss um að ekkert land hafi farið framhjá mér og þá kom í ljós að ég mundi hvað ég gerði í hverju einasta landi. Þótt sum löndin séu keimlík, þá er munur á milli þeirra.“
Hafandi þessa reynslu, getur Ingjaldur nú ferðast aftur til þeirra landa sem honum fannst skemmtilegust. En hvaða lönd skyldu það vera?
„Mér hefur þótt gaman að fara til Egyptalands og skoða fornminjarnar, pýramídana og egypska safnið í Kairó. Mig langar að fara þangað aftur. Svo var mjög gaman að fara á safarí í Kenýu. Það er annað sem ég gæti hugsað mér. Síðan er Brasilía í miklu uppáhaldi, mig langar aftur til Rio di Janeiro.“
Uppáhaldsborg Ingjalds er hins vegar öllu vestrænni. „Ég get svo farið til New York hvenær sem er, það er uppáhalds borgin mín.“
Reynsla Ingjalds af fólki víðs vegar úr heiminum er afar góð. Hann segir að oft sé viðmót heimamanna öðruvísi en fréttaflutningur gefur til kynna. Nefnir hann sem dæmi ferðalög sín til Írans, Rúanda og Úganda. „Það eru komin um 20 ár síðan ég fór til Írans og þegar ég fór þangað var ímyndin orðin mjög slæm. Fólk var hissa á því að ég þyrði þangað og flestir bjuggust við að það yrði erfitt. Það reyndist mjög þægilegt og skemmtilegt. Fólkið í Íran er vingjarnlegt og gestrisið. Maður var að labba í görðum í Teheran og fólk stoppaði mig og bauð mér að setjast niður og drekka með sér te. Þetta held ég að íslendingar myndi seint gera gagnvart útlendingum.“
„Ég var svo að tala við kunningja minn sem hefur ferðast mjög víða og hann var sammála mér í því að Íranar séu mjög vingjarnlegir. Hann sagðist hafa snætt á veitingastað og þegar hann ætlaði að borga, þá var honum sagt að annar gestur væri búinn að borga fyrir hann.“
Ímynd margra Afríkuríkja á vesturlöndum er slæm, en Ingjaldur segir það oft ekki eiga við rök að styðjast.
„Mér er minnisstætt þegar ég fór til Úganda. Ég hafði heyrt margar hryllingssögur frá landinu, sem áttu rætur sínar að rekja til þess þegar Idi Amin var þjóðhöfðingi og maður bjóst við því að andrúmsloftið væri mjög þungt. Þvert á móti var létt yfir fólki.“
„Það sama gerðist í Rúanda. Ég fór til Rúanda árið 2012 til þess að heimsækja fjallagórilluapa. Það eru ekki nema 25 ár síðan milljón Rúandamanna voru myrtir. En þjóðin virðist vera búin að gera það mál upp og það var mjög ánægjulegt að ferðast þar.“
Ekki eru margir sem hafa lokið þeim merka áfanga að heimsækja öll ríkin 193, en Ingjaldur telur þá vera færri en 10 þúsund talsins. Ætlar hann nú að vinna úr þeim mörg þúsund ljósmyndum sem hann hefur tekið á ferðalögum sínum, og er stefnan sett á að setja þær saman í bók.