„Mér fannst þetta skítleg framkoma“

Að mati ráðgjafa hjá Hinu Húsinu er það algengt að …
Að mati ráðgjafa hjá Hinu Húsinu er það algengt að ungt fólk sé á of lágum launum í veitingageiranum.

„Ég fékk uppsagnarbréf í fyrsta skipti á ævinni fyrir að leita réttar míns. Ég hafði bara fengið hrós fyrir mína frammistöðu og fannst gaman að vinna þarna, þannig að mér fannst þetta frekar skítleg framkoma,“ segir Íris Björk Óskarsdóttir en hún segir farir sínar ekki sléttar af veitingastaðnum Geysi Bistro en þar starfaði hún sem þjónn síðasta vetur.

mbl.is hefur áður greint frá svipuðu atviki sem átti sér stað á Lebowski Bar.

Munaði rúmum 500 krónur á tímann

Eftir að hafa unnið á veitingastaðnum í hlutastarfi með skóla í nokkra mánuði áttaði Íris sig á því að hún var á of lágum launum. „Við vorum nokkrar þarna sem fórum aðeins að spá í þessu. Við föttuðum að við vorum á jafnaðarlaunum og okkur fannst það frekar undarlegt þar sem við unnum aðeins kvöldvaktir og um helgar.“

Að sögn Írisar var hún með rúmar 1600 krónur á tímann á jafnaðarkaupi en samkvæmt stéttarfélagi Írisar, Eflingu, eru rétt laun á kvöldin í hennar launaflokki  2175 krónur á tímann. Íris ræddi ekki launamál við eigendur staðarins þegar hún var ráðin  og telur hún að mörg ungmenni geri sömu mistök. „Ég var bara svo ánægð að fá vinnu að ég hugsaði ekki út í launin. Ég vildi bara geta borgað leigu og reikninga, það var það sem skipti máli.“

Tapa á því að vera á jafnaðarlaunum

Íris og tvær samstarfskonur hennar fóru til Eflingar og komust að því að þær voru á of lágum launum. „Þar sem við vorum bara að vinna kvöld og helgar töpuðum við gífurlega á því að vera á jafnaðarkaupi. Síðan var ein okkar sett í fulla stöðu og gerð að vaktstjóra. Hún var samt ekki hækkuð í launum fyrr en hún benti þeim á að gera það, þetta kemur ekkert sjálfkrafa.“

Að sögn Írisar voru þó aðrir hlutir en launin undarleg á vinnustaðnum. „Við vorum til dæmis með vaktaplan og það var alltaf gert bara viku og viku í senn sem okkur fannst auðvitað óþægilegt. Við báðum um að það yrði gert mánuð í senn og það var einfaldlega ekki hægt og þau hálf æstu sig útaf þessari bón okkar. Þess vegna langaði okkur ekkert að tala við þau um launin.“

Sögðu að traust hefði verið rofið

Íris segir að í staðinn fóru hún og samstarfskonur hennar í hálfgerða uppreisn og fóru aftur til stéttarfélagsins, afhentu tímana sína og létu félagið setja þetta saman. Nokkrum dögum síðar fengu eigendur staðarins bréf þar sem Efling útskýrði fyrir þeim að þeir skulduðu starfsfólki sínu laun. 

„Ég mætti til vinnu tveimur dögum eftir að þau fengu bréfin. Einn af eigendunum var á svæðinu og hún bað mig um að tala aðeins við sig,“ segir Íris. „Við settumst niður og hún rétti mér uppsagnarbréf. Hún sagði að forsendur til okkar samstarfs væru ekki lengur til staðar. Jafnframt sagði hún að traustið á milli okkar væri rofið þar sem við fórum beint til stéttarfélagsins en ekki til þeirra. En auðvitað eigum við að geta treyst þeim til að borga okkur sanngjörn laun.“

Ásamt Írisi var öðrum starfsmanni sem leitaði réttar síns sagt upp. Síðan hafði þriðji starfsmaðurinn hætt nokkrum vikum áður. 

Íris telur að rekstur staðarins gangi vel og er mikið að gera. „Það var brjálað að gera þarna öll kvöld og var eiginlega alltaf undirmannað því þau voru ekki að ráða nóg fólk. Svo voru eintómir nýliðar enda mikil starfsmannavelta á stað sem þessum. Síðan veit ég að þeir voru að taka stelpur í prufur án þess að greiða þeim sem er auðvitað ólöglegt.“

Algengt í veitingageiranum

Íris telur að margir veitingastaðir svindli á starfsfólki sínu og hafi þau á of lágum launum. „Ég held að því miður sé þetta alltof algengt. Þegar við fórum í Eflingu töluðum við við mann þar sem sagði okkur að 95% veitingastaða væru að brjóta á starfsfólki sínu. Hann sagði að hann vissi um einn veitingastað þar sem allt er í lagi launalega séð. Ég skil ekki af hverju veitingamenn vilji að þetta sé það sem einkennir þeirra rekstur.“

Íris telur það mikilvægt að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál. „Fólk þarf að vita að þetta er ekki í lagi. Síðan er alveg fullt af útlendingum sem vinna í eldhúsum og við uppvaskt á veitingastöðum hér og ég er með áhyggjur af því hversu mikið er brotið á þeim. Þeir tala kannski tungumálið, fara ekki í stéttarfélagið og þora heldur ekki að gera eitthvað því þeir mega ekki við því að missa vinnuna, því eins og mín saga sýnir er fólki bara sagt upp.“

Þörf fyrir fræðslu

Að sögn Kristínar Ólafsdóttur, sem starfar hjá Hinu Húsinu, hljómar saga Írisar eins og dæmigerð saga um ungan einstakling sem leitar réttar síns á vinnustað. Kristín er hluti af tvíeykinu sem stendur á bakvið fræðslustarfið Skyldurækin sem leitast eftir því að fræða ungmenni um launa- og peningamál í sumar. Skyldurækin er nýtt verkefni sem hefur gengið vel í sumar að sögn Kristínar.

„Við höfum fundið fyrir því hvað það er mikil þörf fyrir fræðslu um þessi mál. Ungmenni vita voða lítið um réttindi sín og eru ekki endilega meðvituð um að verið sé að brjóta á þeim,“ segir Kristín og bætir við að það sé nokkuð algengt að vinnuveitendur hafi fólk á jafnaðarlaunum í störfum þar sem fólkið starfar mest á kvöldin og um helgar. 

„Oft er heldur ekkert samið um jafnaðarkaup fyrirfram heldur eru þau bara sett á það. Næstum allir sem við töluðum við sögðust ekki þora að gera neitt í sínum málum. Það er nefnilega oft svo erfitt að vera sá sem ákveður að leita réttar síns, það sem það einfaldlega líðst ekki. Sem er auðvitað alveg fáranlegt.“ 

Uppfært 15:45: Leitast var eftir viðbrögðum frá Geysi bistro í dag án árangurs.

Krafðist réttra launa og var rekin

Íris Björk leitaði réttar síns og var sagt upp.
Íris Björk leitaði réttar síns og var sagt upp.
Kristín segir að það of algengt að ungt fólk sé …
Kristín segir að það of algengt að ungt fólk sé á of lágum launum í veitingageiranum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert