„Margar stofnanir hafa þurft að skera mikið niður á yfirstandandi fjárlaga ári og m.a. þurft að segja upp starfsfólki. Verkefnum þessarar stofnana hefur á sama tíma ekki fækkað og raunar hafa þau víða aukist. Starfsfólk hins opinbera – sem sinnir velferðarmálum, veitir heilbrigðis- og umönnunarþjónustu, sinnir öryggismálum o.s.frv. – hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf á síðustu árum á sama tíma og stöðugt hefur verið vegið að starfsheiðri þeirra. Þetta sama fólk hefur þrátt fyrir illt umtal, stöðugan niðurskurð og uppsagnir samstarfsmanna náð að sinna sínum verkefnum og gert það vel. Þetta starfsfólk á betur skilið en þessar köldu kveðjur.“
Þetta segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, á vefsíðu bandalagsins vegna ummæla Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar Alþingis, um ríkisstofnanir og rekstur þeirra. Vigdís hafi gagnrýnt framúrkeyrslu ríkisstofnana harðlega en síðan hafi fengist eðlilegar skýringar á þeim tölum sem birst hafi í árshlutauppgjöri.
„Formaður fjárlaganefndar hefur í kjölfarið sagt að staðan sé því víða ekki eins slæm og árshlutauppgjörið segi til um. Það hefur samt ekki dregið úr þeim ofsa sem einkennt hefur umræður formannsins um störf opinberra starfsmanna og vilja hennar til að minnka starfsöryggi þeirra. Í málflutningi sínum hefur formaður fjárlaganefndar ítrekað gerst sek um alls kyns rangfærslur sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Svo sem varðandi áminningarferli ríkisstarfsmanna auk þess að halda því fram að ríkisstarfsmenn séu æviráðnir og því sé ómögulegt að reka þá úr starfi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar fram til þessa hafa heldur betur sýnt fram á annað og því veit formaður fjárlaganefndar, sem auk þess er löglærð, betur. Nema að hún sé vísvitandi að halda öðru fram en því sem hún veit til að afla stuðnings við tillögur sínar um að skerða réttindi opinberra starfsmanna, sem að mínum dómi væri talsvert alvarlegra en hreint þekkingarleysi,“ segir Elín Björg ennfremur.