Ríkisskattstjóri hefur þurft að gera athugasemdir við tekjuskráningu hjá um helmingi þeirra fyrirtækja sem verið hafa til athugunar í sumar. Fimm fyrirtækjum hefur verið lokað vegna þessa og um 70 hefur verið tilkynnt um lokun. Langstærstur hluti þessara fyrirtækja er í ferðaþjónustu eða í rekstri tengdum ferðaþjónustu.
„Við fórum í heimsóknir í fyrirtæki nær daglega og í sumar höfum við sérstaklega lagt áherslu á ferðaþjónustu. Tvö til þrjú teymi starfsmanna fóru um landið og könnuðu tekjuskráningu og launagreiðslur í þessum fyrirtækjum,“ segir Sigurður Jensson, sviðsstjóri eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra.
Hann segir að embættið hafi heimsótt hátt í 1.400 fyrirtæki á árinu. ,,Það eru hátt í 70 fyrirtæki þar sem launagreiðslur hafa ekki verið með viðeigandi hætti og hefur þeim verið tilkynnt um lokun starfsstöðva, geri þau ekki úrbætur,“ segir Sigurður. Hann segir að þetta séu allt fyrirtæki í ferðatengdri starfsemi. Fimm fyrirtækjum var lokað en eftir að þau brugðust við og gerðu úrbætur, voru þau opnuð aftur. „Hugsanlega verður 2-3 fyrirtækjum lokað á næstu dögum,“ segir Sigurður.
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.