Elín Hirst lýsti eftir ungum manni

Elín Hirst lýsti eftir ungum manni á Facebook-síðu sinni í …
Elín Hirst lýsti eftir ungum manni á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Árni Sæberg

Þingmaðurinn Elín Hirst lýsti eftir ungum manni á Facebook-siðu sinni í gærkvöldi. Maðurinn, sem er haldinn geðröskun, er 23 ára gamall en ekki hafði sést til hans frá því að hann fór frá heimili sínu í Kópavogi á mánudag. Hún bað vini sína um að hafa samband við sig eða lögreglu ef þeir hefðu séð til hans.

Maðurinn fannst klukkan fjögur í nótt í Hafnarfirði, heill á húfi. Elínu bárust margar ábendingar frá fólki sem taldi sig hafa séð manninn.

Í miklu uppnámi og algjörlega ráðalaus

„Vinir mínir af erlendu bergi brotnir leituðu til mín vegna málsins, enda í miklu uppnámi og algerlega ráðalaus. Tungumálaerfiðleikar og erfiðleikar við að leita hjálpar í gegnum kerfið voru að buga þau,“ segir Elín í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Ég spyr mig hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa hér umboðsmann innflytjenda til að aðstoða og tryggja rétt þeirra sem íslenskra borgara þegar eitthvað alvarlegt bjátar á, eins og hjá vinum mínum í gær.“

Innflytjendur hjálparvana gagnvart kerfinu

„Þetta er hvorki fyrsta eða eina dæmið sem ég hef upplifað þetta nákvæmlega sama hjá borgurum landsins og eru innflytjendur þegar eitthvað mikið bjátar á að þá eru þeir hjálparvana gagnvart kerfinu okkar; t.d. gagnvart lögreglu, heilbrigðiskerfi, skólakerfi,“ skrifar Elín. 

„Maðurinn sem lýst var eftir í gærkvöldi er fundinn heill á húfi. Hann fannst í Hafnarfirði klukkan fjögur í nótt. Ættingjar hans segja mér að þeim hafi liðið svo miklu betur að fylgjast með leit okkar hér á FB og lesa fjölda tilkynninga frá fólki um hvar sést hefði til ástvinar þeirra. Það var gott að heyra. Takk allir þeir sem lögðu hönd á plóg í gærkvöldi en það voru mörg hundruð manns í gegnum Facebook.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert