Geta fylgst með þróun ríkisfjármála

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra vígir vefinn.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra vígir vefinn. mbl.is/Styrmir Kári

Fjársýsla ríkisins ýtti formlega úr vör í dag nýjum vef sem ætlað er að veita gott aðgengi að ríkisreikningi hvers árs en vefurinn er að finna á slóðinni: www.rikisreikningur.is. Finna má á vefnum sundurliðun á tekjum og gjöldum ríkisins allt frá árinu 2004 og er hægt að skoða gögnin á margvíslegan hátt.

„Vefurinn gefur fólki tækifæri á að bera saman ýmis útgjöld á vegum ríkisins, t.d. eftir stofnunum og árum með aðgengilegri hætti en verið hefur,“ segir í fréttatilkynningu frá Fjársýslu ríkisins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vígði vefinn formlega í dag að viðstöddum fjölmiðlum. Ráðherrann sagðist fagna þessu skrefi í átt til greiðara aðgengis almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins sem væri til þess fallið að auka gegnsæi og traust og gefa fólki færi á að sjá hvernig útgjölf ríkisins væru að þróast. Það veitti um leið stjórnvöldum aðhald þegar kæmi að meðferð skattfjár.

Þá var ríkisreikningur fyrir síðasta ár, sem kynntur var á blaðamannafundi í dag, í fyrsta sinn undirritaður með rafrænum hætti en Ísland varð með fyrstu ríkjum til þess að gera það. Bjarni sagði slíkt fela í sér stórt skref í rétta átt og tók dæmi um það hvernig undirritun hans á ríkisreikningnum hafi átt sér stað. 

„Ég get sagt frá því að eftir að hafa áður kynnt mér ríkisreikninginn og þegar að því var komið að staðfesta reikninginn með undirritun minni þá stóð þannig á hjá mér að ég var staddur í rútu og ég gat framkvæmt hina rafrænu undirskrift í gegnum símann úr rútunni á fleygiferð um Norðausturland.“

Ríkisreikningur.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka