Hvert mál kostar um 300.000

Umboðsmaður skuldara.
Umboðsmaður skuldara. mbl.is/Eggert

Kostnaður við hvert mál sem tekið er fyrir hjá embætti Umboðsmanns skuldara er að jafnaði 300.000 krónur. Alls eru málin orðin rúmlega 12.000 talsins síðan embættið tók til starfa í ágúst 2010.

Talsvert hefur dregið úr ásókninni frá því mest var, árið 2011. Þá bárust embættinu 4000 mál, en fyrstu sex mánuði þessa árs voru málin rétt rúmlega þúsund talsins. Þar er ekki talin með almenn ráðgjöf, að því er fram kemur á vefsíðu Umboðsmanns skuldara.

Af rúmlega 12 þúsund málum embættisins eru um 5.000 greiðsluaðlögunarmál, um 3.500 ráðgjafarmál, um 3.500 erindi og um 300 umsóknir um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar. Á bakvið hvert mál eru oft á tíðum fleiri einstaklingar, fjölskyldumeðlimir eða aðrir sem málið snertir. Þá geta hjón og sambýlisfólk sótt saman um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika.

Í þeim samningum um greiðsluaðlögun sem embættið hefur haft milligöngu um, hefur verið samið um 20 milljarða kr. eftirgjöf af samningskröfum. Að meðaltali er samið um 87% eftirgjöf af samningskröfum, sem eru rúmlega 8 milljónir kr. á sérhvern samning. Þá er lokið afmáningu veðskulda upp á 855 milljónir kr. í 100 málum en afmáningin fer fram hjá sýslumönnum við lok greiðsluaðlögunarsamnings.

Einungis hluti þeirra sem hafa fengið samning um greiðsluaðlögun eru fasteignaeigendur sem sótt geta um afmáningu. 744 samningar hafa nú ákvæði um afmáningu, þannig að búast má við að heildarupphæð afmáðra veðkrafna muni hækka mikið. Þá eru ótaldar skuldir sem einstaklingar kunna að hafa fengið niðurfelldar í kjölfar þess að þeir sóttu sér ráðgjöf embættisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert